Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Berrössuð á súru balli á Siglufirði

Mynd: Samsett / RÚV

Berrössuð á súru balli á Siglufirði

29.12.2021 - 11:40

Höfundar

Það eru 40 ár síðan Árni Matthíasson gerðist landkrabbi. Hann var togarasjómaður sem vildi á þurrt og fann sér þá stöðu sem prófarkalesari á Morgunblaðinu. Í dag starfar hann sem netstjóri mbl.is og er að auki ástsæll menningarrýnir en hann á ýmsar áhugaverðar minningar af menningunni á verbúð, bæði af Bubba Morthens og baðferðum á miðju balli.

„Þegar ég er 17 ára þá fer ég til Vestmannaeyja og er ráðin á humarbát og ég er á verbúð hjá Fiskiðjunni. [Það voru] allir á pínulitlum herbergjum og verbúðarlífið fór voða mikið fram á göngunum því það var ekkert pláss inni á herbergjunum,“ rifjar Árni upp. 

„Fyrstu nóttina sem ég var þarna þá vakna ég við það að það eru tveir menn að syngja mjög hátt. Spila á gítar og syngja: „Lifi Stalín og hinn rauði her“ og ég fór fram. Það voru þá Bubbi og Tolli og þar kynntist ég þeim.”

 

Verðmætum bjargað með „megrunartöflum“ 

Árni er einn af viðmælendum Atla Más Steinarssonar í fyrsta þætti hlaðvarpsins Með Verbúðina á heilanum, sem fylgir eftir sjónvarpsþáttunum Verbúðinni. Miklar umræður spunnust um þáttinn á samfélagsmiðlum, meðal annars um það hvort handritshöfundar hefðu ýkt verbúðarlífið um of.

Árni segir kvikmyndagerðarmönnum tamt að skrúfa upp í dramatíkinni til að gera efnið áhugaverðara, að upp til hópa hafi verbúðarfólk verið frábært og verbúðarlífið gott. Eins gott og lífið getur verið í „hálfónýtu, röku og skítugu húsnæði,” það er. Árni staðfestir þó að ýmislegt misjafnt hafi gengið á.

„Þegar við kynnumst þarna úti við Bubbi þá erum við að éta sveppi og reykja hass sko, og það er 1974. (...) Þetta var allt til þarna. Menn notuðu amfetamín eða megrunartöflur eins og þær voru kallaðar stundum,“ segir Árni og bætir við að það hafi verið býsna algengt. Hann segir fólk hafa lært að það væri að bjarga verðmætum. Það yrði að vinna þar til verkið væri fullunnið. 

„Það sem ég lærði á sjónum og verbúðarlífinu er þessi skorpuvinna: að halda áfram þar til allt er búið. Sem getur náttúrulega drepið þig á endanum og menn notuðu örvandi lyf alveg hægri vinstri.“ 

Susan og balagjörningurinn

Eitt atriði í fyrsta þætti Verbúðarinnar vakti sérstaka athygli á samfélagsmiðlum. Í atriðinu virtist nakin kona baða sig á miðju sveitaballi, þar sem gestir fylgdust fremur sauðslegir með en margir áhorfendur veltu fyrir sér hvort atriðið gæti virkilega vísað í raunveruleikann. Svarið er einfalt: já.

Mynd með færslu
Susan Haslund, sem þekkt var fyrir baðferðir, lærði sálfræði og starfaði síðar sem leikskólakennari.

„Ég var ekki mikið fyrir að fara á böll en ég man eftir mjög súru balli á Siglufirði þar sem kom einhver stelpa og var allsber í einhverjum bala með einhverri froðu,” segir Árni. 

Þar var komin hin danska Susan Haslund sem ferðaðist um Ísland hvert sumar árin 1974 til 1981 og sýndi nektardans. Sýningin fór iðulega fram á meðan hljómsveitir tóku sér pásu og Haslund lék ýmsar listir, kom fram í brúðarklæðum og jólasveinabúning, en þekktust var hún samt fyrir baðferðir sínar þar sem hún dillaði sér í pínulitlum bala.

„Nektardans var bannaður,“ segir Árni „en [nektardansmeyjar] máttu koma og sýna einhvern listrænan gjörning eins og að fara allsberar í bala með froðu og smyrja sig með froðunni og svo framvegis.“

Konurnar voru límið

Fyrsta þætti Verbúðarinnar lauk með því að Harpa, persóna Nínu Daggar Filippusdóttir, hljóp bæinn þveran og endilangan til að taka yfir kaup á togara og tryggja bænum þannig afkomu. Þar varð Árni efins um trúverðugleikann.

„Svona konur voru auðvitað til í öllum plássum alls staðar á landinu, auðvitað. Þær voru svolítið límið í þessu samfélagi á bakvið tjöldin, þegar karlarnir voru að sperra sig,“ segir Árni. „Þær voru töffararnir sem tóku völdin og gerðu það sem þurfti að gera.“

Hann segir konur hafa bundist sterkum böndum, byggðum á sameiginlegri reynslu og svo hafi þær síður verið í sömu pissukeppninni og karlarnir. Harpa sé trúverðug sterk kona en Árni setur spurningarmerki við samfélag þess tíma og hvort það hefði tekið lausnir hennar gildar. Vissulega sér hann þó samsvörun með þáttunum og lífinu sjálfu: karlarnir eru í rugli en konurnar hlaupandi í hringi að reyna að bjarga málum.

„Er það ekki bara mannkynssagan í hnotskurn?“

Árni Matthíasson ræðir ítarlegar um upplifun sína af verbúðarlífinu í fyrrnefndu förunauts-hlaðvarpi Verbúðarinnar – Með Verbúðina á heilanum. Í fyrsta þætti hlaðvarpsins er einnig rætt við búningahönnuðina Rebekku Jónsdóttur og Margréti Einarsdóttur.

Nýr hlaðvarpsþáttur kemur á þar til gerðar veitur og í spilara RÚV á hverju sunnudagskvöldi, í kjölfar Verbúðarinnar. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Búningarnir fengnir úr fataskáp ráðherra

Sjónvarp

Við bíðum bara spennt eftir Twitter 

Sjónvarp

Verbúðin tilnefnd til norrænna verðlauna