Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Langmestu áhrif á atvinnulífið til þessa í faraldrinum

28.12.2021 - 19:34
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Margir vinnustaðir verða fyrir áhrifum veirunnar þessa dagana enda um tólf þúsund manns ýmist í einangrun eða sóttkví. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir áhrifin á atvinnulífið þau mestu frá upphafi faraldursins. Heilbrigðisráðherra segir til skoðunar að stytta einangrun og sóttkví.

Einangrun og sóttkví setur strik í reikning margra. Nú eru samtals um 12 þúsund manns í sóttkví eða einangrun, sem er meira en allur íbúafjöldi Austurlands, og svipar til íbúafjölda Mosfellsbæjar. 

„Ég held að það sé óhætt að segja að þau áhrif sem eru að koma fram núna eru þau langmestu frá upphafi faraldursins og satt best að segja líst manni ekki á blikuna næstu daga ef fram fer sem horfir og tíu, tólf og jafnvel fimmtán þúsund manns sem að stórum hluta eru einkennalaus eru í sóttkví og einangrun þá er ljóst að það hefur mikil áhrif á atvinnulífið og heimilislíf okkar allra. Ég tel blasa við að það þurfi að endurskoða þessa nálgun.“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Til að mynda hafi Bandaríska sóttvarnastofnunin stytt einangrun einkennalausra niður í fimm daga í gær.

„Við getum ekki skellt skollaeyrum við þeirri þróun. Að sama skapi tel ég mikilvægt, jafnvel þó að það leysi ekki úr þessum vanda að ég trúi því að síðar í dag verði gengið frá framlengingu á greiðslu launa í sóttkví þannig að það gildi út árið 2022 sem auðvitað er bót í máli en ekki nægileg lausn til að koma okkur út úr þessum vanda.“ segir Halldór.

Heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir hafa til skoðunar að stytta lengd einangrunar og sóttkvíar á næstunni. Sjúkrahúsinnlagnir í þessari viku skera úr um næstu skref. Gögn sýna að alvarleg veikindi af völdum omíkron afbrigðisins séu vægari en vegna fyrri afbrigða.

„Það er spurning hvort að við þurfum að draga úr þessu eins og aðrar þjóðir hafa gert. Þetta eru sjö dagar í Svíþjóð og Danmörku og sex í Noregi. Bandaríkjamenn voru að lækka þennan tíma. Við skoðum það með sóttvarnalækni,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Og sóttvarnalæknir tekur í sama streng.

„Jú jú, það er það sem við erum alltaf að gera og við verðum að byggja það á sannreyndum upplýsingum en ekki óskhyggju einhverra úti í bæ og Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna er svo sannarlega ábyrg stofnun og skoða á hverju þeir byggja þau tilmæli og skoða með opnum huga og sérstaklega með tilliti til þess hvort við þurfum að breyta okkar tillögum.“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.