Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Íhugar hvort stytta eigi sóttkví og einangrun

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Nærri 900 greindust með COVID-19 í gær og nýgengi veirunnar er því hærra en nokkru sinni. Sóttvarnalæknir metur hvort ástæða sé til að stytta einangrun og sóttkví eftir að Bandaríska sóttvarnastofnunin ákvað að gera það. 

Alls greindust 893 kórónuveirusmit í gær, þar af 57 á landamærum. Nýgengi veirunnar á hverja 100 þúsund íbúa síðustu 14 daga, er 1.359 og hefur aldrei verið hærra. Alls eru nú 5000 í einangrun með veiruna, og 7.000 í sóttkví.  21 er á sjúkrahúsi. 

Fjórir eru á gjörgæsludeild, þar af þrír í öndunarvél. Skimanir og smitrakning standa yfir vegna sjö smita hjá sjúklingum á hjartadeild Landspítalans í gær. Ljóst er að skima þarf alla sjúklinga og starfsmenn deildarinnar, auk allra starfsmanna sem hafa átt erindi inn á deildina síðustu daga. Fyrsti sjúklingurinn greindist annan dag jóla og hinir í gær. Deildinni var lokað eftir að smitin komu upp. og er hún enn lokuð að sögn Andra Ólafssonar, upplýsingafulltrúa Landspítalans. Hann segir reynt að ná utan um smitin og í framhaldinu verði hægt að bregðast við stöðunni og fara í breytingar í ljósi breyttrar stöðu.  

Löng bílaröð myndaðist í morgun við sýnatöku starfsmanna í bílalúgu við Landspítalann í Fossvogi. Mönnun hefur verið erfið síðustu daga. Hátt í hundrað starfsmenn eru frá vinnu og er viðbúið að enn fleiri verði frá vegna sóttkvíar og einangrunar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mikilvægt að stemma áfram stigu við útbreiðslu veirunnar. Hann hefur áhyggjur af stöðunni á spítalanum.

„Auðvitað höfum við mestar áhyggur að við förum að fá alvegarleg veikindi. Við höfum ekki áhyggjur af fólki sem er með lítil einkenni, einu áhyggurnar sem við höfum af fólki með lítil einkenni eru að þau geta smitað aðra sem veikjast alvarlega og það er þess vegna sem við viljum halda útbreiðslunni eins mikið niðri og við mögulega getum sem okkur er ekkert að takast sérstaklega vel. Þessar aðgerðir sem við erum með eru ekki að skila þeim árangri sem við vildum sjá. En það er alveg klárt mál að ef við værum ekki með þessar takmarkanir og engar aðgerðir þá fengjum við miklu hraðari útbreiðslu.“

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna ákvað í gær að stytta einangrunartíma þeirra sem hafa lítil eða engin einkenni sem og tíma sem fólk þarf að vera í sóttkví. Aðspurður segir Þórólfur að þetta þurfi að skoða gaumgæfilega. „Jú jú það er það sem við erum alltaf að gera og við verðum að byggja það á sannreyndum upplýsingum en ekki óskyggju einhverra úti í bæ og sóttvarnastofnun bandaríkjanna er svo sannarlega ábyrg stofnun og skoða á hverju þeir byggja þau tilmæli og skoða með opnum huga og sérstaklega með tilliti til þess hvort við þurfum að breyta okkar tillögum.“