
Flugeldasala hefst í dag
Netverslun til að forðast hópamyndun
Flugeldamarkaðir björgunarsveitanna opnuðu flestir dyr sínar í morgun og hafa opið til klukkan 22 í kvöld og næstu daga. Á gamlársdag verður opið til klukkan 16.
Hægt hefur verið að panta flugelda í netverslun margra björgunarsveita frá 20. desember. Með opnun netverslana er gert ráð fyrir minni hópamyndun á sölustöðum. Fólki er einnig bent á að vera tímanlega í kaupunum þannig að ekki myndist örtröð eins og oft verður til dæmis á gamlársdag.
Hækkun í verði
Starfsmenn björgunarsveitanna hafa þurft að hlaupa talsvert hraðar við að standsetja flugeldamarkaðina þar sem flugeldarnir bárust mun seinna til landsins en vaninn er. Ástæðan er gámaskortur í heiminum og höfðu einhver skipafélög ekki tök á að taka vörurnar til flutnings. Flutningsleiðirnar urðu því lengri og flóknari en áður. Það veldur því að flutningskostnaður var umtalsvert hærri en áður og segir Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, að það komi fram í um 5% hækkun til neytenda.