
Þegar Nelson Mandela tók við forsetaembætti í Suður-Afríku árið 1994 fékk Desmond Tutu það hlutverk að leiða sérstaka Sannleiks- og sáttanefnd sem rannsakaði mannréttindabrot á tímum aðskilnaðarstefnunnar en nefndin hafði einnig það hlutverk að sætta stríðandi fylkingar í landinu.
Tutu hlaut friðarverðlaun Nobels árið 1984 fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku. Sama ár varð hann fyrsti svarti biskupinn í Jóhannesarborg. Hann kallaði eftir því að viðskiptabann yrði sett á stjórn hvíta minnihlutans í landinu.
Á síðari árum gerðist Tutu ötull talsmaður dánaraðstoðar. Í aðsendri grein í Washington Post árið 2016 skrifaði hann að fólk á dánarbeðinum ætti að fá að ráða því sjálft hvernig og hvenær það deyr. Um það leyti sem hann sendi frá sér greinina var hann reglulega sendur á sjúkrahús vegna ítrekaðra sýkinga sem tengdust krabbameini í blöðruhálskirtli, sem hann greindist með árið 1997.