Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

17 látin í flóðum í Brasilíu

26.12.2021 - 07:37
epa09233196 A girl drives a small canoe through flooded streets n Anama, Amazonas, Brazil, 23 May 2021 (issued 28 May 2021). As every year, the rise of the river has filled the municipality's streets with water, but now it is preparing for its greatest flood: canoes have replaced cars and snakes and alligators roam the stilt houses.  EPA-EFE/Raphael Alves  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
 Mynd: epa
Yfir 11.000 manns hafa hrakist frá heimilum sínum í Bahia-ríki í Norðaustur-Brasilíu sökum mikilla flóða á síðustu vikum. Yfirvöld eiga í vandræðum með að koma nauðsynlegum hjálpargögnum til fólksins og enn hefur ekki tekist að koma rúmum þriðjungi þess í öruggt skjól. Ausandi rigning hefur verið í stórum hluta Bahia-ríkis síðan í nóvember og flóðin sem hún veldur hafa þegar orðið 17 manns að fjörtjóni, samkvæmt upplýsingum almannavarna í landinu.

Í tilkynningu almannavarna segir að nær 4.200 manns séu enn án húsaskjóls í 19 bæjum í sunnanverðu ríkinu, sem farið hafa sérlega illa út úr rigningunum. Umfangsmiklar björgunar- og hjálparaðgerðir hófust á flóðasvæðunum í gær, í samstarfi alríkisstofnana og yfirvalda í Bahia-ríki.

Innviðaráðuneyti Bahiaríkis greinir frá því að 17 fjölförnum þjóðvegum hafi verið lokað vegna flóða, aur- og grjótskriðna. Í frétt AFP segir að úrkoman í ríkishöfuðborginni Salvador á aðfangadag hafi mælst 250 millimetrar, sem er margföld meðalúrkoma á þessum árstíma. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV