Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Trump biður hæstarétt að stöðva afhendingu gagna

24.12.2021 - 03:32
epaselect epa08923457 Supporters of US President Donald J. Trump stand by the door to the Senate chambers after they breached the US Capitol security in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Protesters stormed the US Capitol where the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden took place.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: Jim Lo Scalzo - EPA
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur áfrýjað úrskurði alríkisdómstóls um að skjalasafn Hvíta hússins skuli afhenda rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings hundruð skjala og annarra gagna frá síðustu dögum og vikum forsetatíðar hans.

 

Rannsóknarnefndin hefur krafist þess að fá gögnin í hendur, með það fyrir augum að fá betri mynd af embættisfærslu forsetans fyrrverandi og hans nánustu ráðgjafa í aðdraganda árásar þúsunda stuðningsmanna Trumps á þinghúsið í Washington í janúar síðastliðnum.

Nefndin hefur þegar brugðist við áfrýjun Trumps með því að biðja hæstarétt um flýtimeðferð á áfrýjuninni svo að það skýrist fyrir miðjan næsta mánuð, hvort rétturinn muni taka málið fyrir eða ekki.

Formlegt hlutverk nefndarinnar er að rannsaka árásina á þinghúsið og aðdraganda hennar ofan í kjölinn og draga lærdóm af niðurstöðunum, sem nýst getur til að hindra að slíkir atburðir endurtaki sig.