„Þögnin“ vinsælasti dagskrárliðurinn

24.12.2021 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Tæplega 15 mínútna hlé verður gert á útsendingur Rásar 1 áður en aftansöngurinn í Dómkirkjunni hefst klukkan sex. Þröstur Helgason dagskrárstjóri Rásar 1 segir að þessi siður eigi sér langa sögu hjá Ríkisútvarpinu og sé einn vinsælasti dagskrárliðurinn í íslensku útvarpi.

Hlé verður gert á útsendingu Rásar 1 klukkan 17:47 í dag þangað til aftansöngur hefst í Dómkirkjunni klukkan sex. Hlustendur Rásar 1 þekkja vel þessa þögn enda hefur hún verið fastur liður í útsendingu Rásar 1 á aðfangadag í áratugi.

Þröstur Helgason dagskrárstjóri Rásar 1 segir hægt að rekja þennan sið til árdaga Ríkisútvarpsins á fyrri hluta síðustu aldar.

„Það þarf auðvitað að hafa í huga að á fyrstu árum og áratugum Ríkisútvarpsins voru þagnir mun algengari í dagskránni en nú á dögum. Þögnin fyrir klukkan sex á aðfangadag er eina þögnin sem við dagskrársetjum núna. Sú eina sem er eftir af þessu einkenni útvarpsins fyrstu árin og áratugina,“ segir Þröstur.

Á mörgum heimilum er það siður að hlusta á kirkjuklukkurnar í útvarpinu þegar jólin ganga í garð klukkan sex.

„Samkvæmt okkar mælingum þá er það fimmtungur og allt að fjórðungur þjóðarinnar sem hlustar á þögnina á Rás eitt fyrir klukkan sex á aðfangadagskvöld. Sem þýðir að þessi þögn er einn vinsælasti dagskrárliðurinn í íslensku útvarpi,“ segir Þröstur.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV