Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fjarlægðu minnisvarða um myrta stúdenta

23.12.2021 - 00:55
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
Minnismerki um fórnarlömb blóðbaðsins á Torgi hins himneska friðar, sem stóð við Hong Kong-háskóla um 24 ára skeið, var fjarlægt 22. desember 2021.
 Mynd: AP
Stjórnendur Hong Kong-háskóla staðfestu í dag að stytta sem reist var við skólann til minningar um þau sem kínverskir hermenn drápu á Torgi hins himneska friðar í Peking í Kína árið 1989 hafi verið tekin i sundur og fjarlægð af lóð skólans 24 árum eftir að henni var komið þar fyrir. „Ákvörðunin um þessa gömlu styttu var tekin á grundvelli utanaðkomandi lögfræðiráðgjafar og áhættumats sem gert var með hagsmuni háskólans að leiðarljósi,“ segir í yfirlýsingu Hong Kong-háskóla.

Mótmælin á Torgi hins himneska friðar voru einkum knúin áfram af stúdentum, sem kröfðust meira lýðræðis og frelsis. Þau hófust í apríl 1989 og lauk ekki fyrr en stjórnvöld í Peking siguðu hernum á þær þúsundir mótmælenda, einkum stúdenta, sem samankomnar voru á torginu hinn 4. júní sama ár.

Hermennirnir beittu hríðskotabyssum og skriðdrekum þegar þeir myrtu fjölda fólks á torginu. Ekki er vitað með vissu hversu marga mótmælendur hermennirnir drápu en öruggt er talið að þeir hafi skipt hundruðum hið minnsta.

Eftir að Bretar afhentu Kínverjum lyklavöldin í Hong Kong árið 1997 hefur fjarað hratt og mikið undan lýðræði og frelsi í borgríkinu  og aldrei hraðar og meira en á allra síðustu árum.