Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skrifa undir samning um kaup á Hótel Sögu

22.12.2021 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Bændasamtök Íslands
Ríkið og Félagsstofnun stúdenta hafa skrifað undir samning við félag í eigu Bændasamtakanna um kaup á Hótel sögu í vesturbæ Reykjavíkur.

Hin sögufræga Hótel Saga þar sem fjöldi dansleikja og samkomur fóru fram fær nú nýtt hlutverk. Hótelið hefur um árabil verið bæði veitinga, samkomu, og gististaður bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna. Í nóvember í fyrra var öllu skellt í lás vegna rekstrarvanda, enda lítið um ferðamenn og samkomutakmarkanir í gildi. 

Í stað hótelstarfsemi verður hluti þess nú nýttur undir starfsemi Háskóla Íslands en auk þess mun Félagsstofnun stúdent nýta húsið undir stúdentaíbúðir. Samningurinn var gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis en heimild til kaupanna var staðfest með samþykkt fjáraukalaga.

Afhending hússins mun fara fram á næstu vikum og mánuðum segir í tilkynningu á vef Bændasamtakanna. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá. 

Gert er ráð fyrir að menntavísindasvið Háskóla Íslands hafi aðsetur í húsinu. Ekki er greint frá kaupverðinu í tilkynningu samtakanna. Jón atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands sagði fyrr í þessum mánuði að það gæti kostað allt að þremur milljörðum króna að gera við rakaskemmdir á Hótel Sögu og breyta hótelinu í skólahúsnæði. 

Í fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra er óskað eftir heimild til að kaupa hótel Sögu og stefnt er að því að Menntavísindasvið Háskóla Íslands verði fært þangað. Heildarumfang vegna kaupa á fasteignum nemur um fimm milljörðum og munar þar mest um Hótel Sögu. 

Fyrr í vetur auglýstu samktökin listaverk sem prýddu veggi hótelsins til sölu á uppboði. Þar á meðal voru verk eftir Eggert Pétursson, Kristínu Þorkelsdóttur, Valtý Pétursson, Eddu Jónsdóttur og Ragnheiði Jónsdóttur svo einhverjir séu nefndir.