Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Óvíst um áhrif óbreytts skólahalds á faraldurinn

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Sóttvarnalæknir segir óvíst hvort óbreytt skólahald eftir áramót muni hafa áhrif á þróun kórónuveirufaraldursins, en tillögu hans um að því yrði frestað var hafnað á ríkisstjórnarfundi í gær. Flestir sem greindust í gær voru börn á yngri stigum grunnskólans.

Í gær greindust 318 með kórónuveiruna, þar af 51 á landamærunum en ekki hafa jafn margir greinst þar á einum degi það sem af er þessu ári. Sóttvarnalæknir segir að smitin séu flest hjá börnum á aldrinum 6-12 ára.  „Það er stærsti hópurinn og það er stærsti hópurinn sem er í einangrun. Það er líka stærsti hópurinn hlutfallslega sem er að smitast,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Sífellt hærra hlutfall smitanna er af omíkron afbrigði kórónuveirunnar. Í gær var hlutfallið 70%, í fyrradag 50% og daginn þar áður um 30%. „Við vitum að omíkron er í miklum vexti, við vitum að það breiðist miklu hraðar út heldur en delta - tvöföldunartíminn á útbreiðslunni er 2-3 dagar. Þannig að það kemur ekkert á óvart, það verður allsráðandi hérna eftir stuttan tíma,“ segir Þórólfur.

Nýjar sóttvarnareglur taka gildi á miðnætti, í þeim er að mestu farið eftir tillögum sóttvarnalæknis, fyrir utan tillögu hans um frestun skólahalds eftir áramót. „Ég kem með tillögur sem ég tel vera skynsamlegar og bestu faglegu tillögur sem ég get komið með,“ segir Þórólfur. „Síðan er það bara stjórnvalda að taka tillit til annarra þátta og það er ekkert víst að endanleg niðurstaða verði nákvæmlega eins og ég legg til.“

En þú lagðir þetta til af einhverjum ástæðum - þú taldir þetta geta heft útbreiðslu smita? „Já, ég hef talið það og við höfum verið með smit aðallega hjá börnum á þessum aldri og dreifing þaðan. Á þeim grunni lagði ég þetta til.“

En þú heldur að það eigi ekki eftir að hafa afgerandi áhrif á þróun faraldursins? „Ég veit það ekki, það verður að koma í ljós.“