Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Borgin býst við einu andláti á ári, þau eru orðin þrjú

Mynd með færslu
 Mynd: Lucian Alexe
Á árinu hafa fjórir gangandi eða hjólandi vegfarendur látist í umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu, þar af þrír í Reykjavík og langtum fleiri en undanfarin ár. Reykjavíkurborg stefnir að því að fækka slysum um fjórðung fyrir árið 2023. Sérfræðingur segir að nú þurfi meira til en áður til að fækka slysum. Spegillinn fjallar um stöðu og þróun umferðaröryggis í Reykjavík.

 

Skammdegisslysin í borginni

Ef horft er aftur í tímann hefur umferðaröryggi stórbatnað, um það eru viðmælendur Spegilsins sammála. En hefur öryggi allra batnað? 

Sú var tíðin að á landsvísu létust tugir í umferðinni á ári hverju. Það sem af er ári eru andlátin orðin átta á landsvísu. Fleiri en í fyrra og hittifyrra. 

Fjögur af þessum mannslífum töpuðust í skammdegisumferðinni á höfuðborgarsvæðinu.

Það eru helst gangandi og hjólandi sem slasast alvarlega í þéttbýli, minna um alvarleg meiðsl í innanbæjarárekstrum bifreiða. Bíllinn er jú ákveðinn brynja og nýir fólksbílar eru hannaðir til að veita ökumönnum og farþegum sífellt meiri vernd. 

Keyrt á hjólandi og gangandi

Banaslysin sem orðið hafa á höfuðborgarsvæðinu í ár urðu öll snemma morguns.

Í janúar hlaut 65 ára gamall maður alvarlega höfuðáverka eftir fall á reiðhjóli í Breiðholti, hann lést á sjúkrahúsi degi síðar. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að andlátið megi rekja til þess að maðurinn var ekki með hjálm. 

Þann 17. febrúar lést karlmaður á áttræðisaldri eftir að hafa orðið fyrir bíl á gatnamótum Kauptúns og Urriðaholtsstrætis í Garðabæ. Rannsókn þess slyss er langt á veg komin, en enn ólokið.

10. nóvember lést maður á rafhlaupahjóli. Hann og ökumaður vespu skullu saman á illa upplýstum hjólastíg við Sæbraut. Að morgni 25. nóvember ók svo strætisvagn á gangandi konu á gatnamótum Gnoðarvogs og Skeiðarvogs með þeim afleiðingum að konan lést. Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar tildrög þessara slys, niðurstöðu er að vænta í vor. 

Frá því í byrjun september hafa fjölmiðlar greint frá að minnsta kosti 13 slysum til viðbótar þar sem ekið hefur verið á gangandi fólk, fólk á hjóli eða rafhlaupahjóli, börn eða fullorðna. 

Lögregla og almenningur einblíni á fórnarlömbin

 

Mynd með færslu
 Mynd: Moritz Kindler

Öll höfum við skoðanir á umferðinni, og stundum skapast rígur milli vegfarendahópa. Árni Davíðsson, formaður Landssambands hjólreiðamanna, segir að menningin sé mjög bílmiðuð, hugarfar ökumanna og annarra í samfélaginu gegnsýrt af því og tilhneiging til þess hjá lögreglu og almenningi að beina athyglinni að fórnarlömbunum.

„Þegar það er ekið á gangandi eða hjólandi vegfaranda er strax byrjað að tíunda að hann eigi að vera með endurskinsmerki og svo framvegis, athyglinni er miklu síður beint að ökumanninum á bílnum, hann fær síður tilmæli um að keyra varlega og hægt í rigningu og myrkri þar sem hann sér ekki almennilega hvað er á ferðinni. Öll athyglin beinist að mjúku vegfarendunum sem verða fyrir bílunum,“ segir Árni. 

Búast við 241 slysi á ári

Viðhorf og hegðun vegfarenda skipta máli þegar kemur að umferðaröryggi en líka innviðirnir og þá móta ríki og sveitarfélög. 

Umferðaröryggisstefna Reykjavíkurborgar tók gildi árið 2019 og gildir til 2023. Þar segir að á ári hverju megi gera ráð fyrir um 240 umferðarslysum innan borgarmarkanna. Þar af 40 slysum þar sem fólk slasast alvarlega og einu banaslysi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Þung umferð í Reykjavík.

Borgin hefur sett sér það markmið að fækka slysum almennt um fjórðung og alvarlegum slysum um 10% fyrir árið 2023. Þá verði ekki fleiri en fimm banaslys á árunum 2019 til 2023 og stefnt að því að alvarleg slys á börnum verði ekki fleiri en 43. 

„Alvarlegt og sorglegt“

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, yfirverkfræðingur hjá borginni og starfandi samgöngustjóri, segir að slysum þar sem einhver meiddist hafi fækkað skarpt í fyrra, um 15% frá árinu 2019. Slysum á börnum fækkaði um þriðjung. 

„Það þarf að horfa til þess að þetta er ár sem var covid og umferð þar af leiðandi minni, en það gefur okkur líka vísbendingu um hver orsakavaldurinn er í flestum slysum og það er umferðin,“ segir hún. 

Árangurinn virðist enda ekki hafa verið kominn til að vera, heildarfjöldi slysa í ár nálgast fjöldann árið 2019. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Covid-lokun veturinn 2020.

„Trúlega verðum við þó lægri í ár nema er varðar banaslysin. Það er mjög alvarlegt og sorglegt að það hafa orðið þrjú banaslys innan Reykjavíkur í ár. Það er mikil breyting frá því sem hefur verið árin á undan. Árið 2020 varð banaslys uppi á Kjalarnesi vegna malbiks og hálku en þar á undan, við þurfum að fara aftur til ársins 2017 til þess að finna banaslys í umferðinni í Reykjavík.“

Til lengri tíma vill borgin taka upp svokallaða núllsýn í umferðaröryggismálum - þá stefnu að enginn hljóti varanlegt heilsutjón sökum umferðarslysa. 

Verði erfiðara að fækka slysum

Berglind Hallgrímdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Eflu, hefur komið að gerð umferðaröryggisáætlana fyrir sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og var einn þriggja höfunda áætlunarinnar fyrir Reykjavíkurborg. Hún segir erfitt að segja til um þróunina út frá þeim slysum sem hafa orðið í ár.

„Í rauninni getum við ekkert skoðað nema yfir lengra tímabil, slys eru rosalega random og það geta komið toppar, maður fer þá að hafa áhyggjur en svo koma lægðir líka,“ segir Berglind. 

Hjá Eflu er almennt horft til fimm ára slysasögu á ákveðnum gatnamótum eða stöðum, þannig fæst mynd af þróuninni yfir tíma 

Til lengri tíma litið segir Berglind margt hafa breyst til hins betra en vegna þess að vegfarendum fjölgar og umferðin þyngist sé útlit fyrir að slysum fjölgi, verði ekki gripið til aðgerða.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur.

„Í rauninni hefur rosalega mikill ávinningur náðst í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu, en nú erum við líka kominn í þann fasa að við erum búin að ná að koma í veg fyrir flest slysin. Við tekur þá kannski svolítið erfitt tímabil. Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að koma í veg fyrir slys, við þurfum að fara út í stærri og meiri aðgerðir til þess.“ 

Fjárframlög ekki í samræmi við áætlun

Í áætlun Reykjavíkurborgar í umferðaröryggismálum segir að samfélagslegur kostnaður vegna umferðarslysa í Reykjavík nemi 15 milljörðum króna á ári (m.v. verðlag 2013). Aftur á móti sé heildarkostnaðurinn við að hrinda í framkvæmd öllum þeim aðgerðum sem höfundar umhverfisöryggisáætlunar borgarinnar leggja til á árunum 2019 til 2023 sagður vera sex milljarðar.

Fjárframlög borgarinnar til verkefnisins eru langt frá því að sögn Guðbjargar, starfandi samgöngustjóra. Lengst af hafi borgin varið 100 milljónum á ári til umferðaröryggismála, en í ár og í fyrra hafi borgin sett 250 milljónir í slík verkefni. Er það nóg?

„Við verðum bara að gera eins vel og við getum innan þess ramma sem við höfum og það gerum við með því að einblína á staðina og atriðin sem skila mestum árangri.“

Berglind segir að borgin hafi staðið sig vel og hrint ýmsum aðgerðum í framkvæmd síðastliðin ár. Í áætluninni sé mælt með fjölda aðgerða sem geti fækkað slysum, í heild kosti þær sex milljarða en það sé ekkert sem segi að borgin þurfi að ráðast í þær allar. 

En hvað hefur verið gert? „Þetta eru gjarnan aðgerðir sem miða að því að draga úr hraða ökutækja, bæta lýsingu, setja upp gangbrautir, í einhverjum tilfellum að leggja nýja stígbúta til að auka öryggi á gönguleiðum. Við veljum staði þar sem áhættan er hvað mest, og helst á gönguleiðum skólabarna,“ segir Guðbjörg. 

Hámarkshraðaáætlunin

Síðasta vor samþykkti borgin svokallaða hámarkshraðaáætlun og fyrsti áfangi hennar er nú í framkvæmd. „Það er lækkun á hámarkshraða á götum eins og Langholtsvegi, Álfheimum, Rofabæ, Fjallkonuvegi, Snorrabraut og Stjörnugróf. Þetta eru allt götur sem eru þvert í gegnum skólahverfi þar sem börn ganga yfir á leið til skóla og þetta er lækkun á hámarkshraða niður í þrjátíu eða fjörutíu kílómetra á klukkustund eftir aðstæðum,“ segir Guðbjörg. 

Íbúðahverfi í Reykjavík að vetri til, séð úr lofti.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Íbúðahverfi í Reykjavík.

Berglind hjá Eflu er ánægð með þessar áherslur borgarinnar. Það sé fyrst og fremst hraðinn sem drepi og það að verða fyrir bíl á 50 kílómetra hraða jafngildi því að falla fram af svölum á þriðju hæð í blokk.

„Líkurnar á því að lifa af slys ef einhver ekur á þig á 50, mig minnir að líkur á banaslysi séu um 50%. Þess vegna er svo mikilvægt að alls staðar þar sem gangandi eða hjólandi þvera götu sé lágur hraði, að við séum að tryggja að ef einhver skyldi gera mistök og líta af veginum í smástund sé hraðinn við áreksturinn eins lítill og hægt er. Eins leiðinlegt og það er þýðir það að við þurfum að breyta umhverfinu okkar þannig að það sé lágur hraði.“

Það stendur til að lækka hraða á ýmsum götum í eigu borgarinnar, ekki á Miklubraut, Sæbraut, Kringlumýrarbraut eða öðrum stofnbrautum í eigu Vegagerðarinnar. 

Gagnrýnir fækkun skilta og varar við hverfakeyrslu

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, fagnar bættum merkingum við gangbrautir og gönguleiðir barna til og frá skóla en hefur áhyggjur af fækkun umferðarskilta. 

„Reykjavíkurborg hefur verið að taka niður hraðaskilti í íbúðahverfum þar sem stefnan er að fara almennt niður með hraðann, við teljum æskilegt að hafa þau uppi til leiðbeiningar fyrir vegfarendur, það er líka áminning um að fólk gæti að sér.“ 

Guðbjörg hjá borginni segir rétt að skiltunum hafi fækkað, það séu merkingar þegar ekið er inn á 30 svæðin og svo á yfirborði gatna. Engar rannsóknir benda að hennar sögn til þess að fækkun skilta dragi úr umferðaröryggi, mestu skipti hraðahindranir og aðrar aðgerðir til þess að draga úr hraða.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Runólfur Ólafsson.

Runólfur telur líka hætt við því, þegar dregið er úr hraða á stofn- og tengivegum, að fólk stytti sér í auknum mæli leið í gegnum íbúðahverfin og grafi þar með undan umferðaröryggi. Umferðin hagi sér að þessu leyti eins og vatn.

„Þetta hefur gerst og við sjáum líka erlendar rannsóknir sem benda til þess að þetta sé hætta, þess vegna sé mjög mikilvægt að ígrunda vel svona breytingar.“ 

Þá vill hann aðgreina umferð ólíkra samgöngumáta betur. „Þannig að akandi, hjólandi og gangandi geti haft sín svæði til framtíðar, meira heldur en er í dag.“

Vill bæta öryggi þar sem fólk þverar götur

Árni Davíðsson, formaður Landssambands hjólreiðamanna, segir að slysum hafi ekki fjölgað í takt við stóraukinn fjölda þeirra sem hjóla. Fyrir tíu árum hafi um 2% borgarbúa farið ferða sinna á reiðhjóli, nú sé hlutfallið komið upp í 7% í sumum hverfum. Hann er ánægður með aðgerðir sem borgin hefur ráðist í til að draga úr hraða. 

„Það sem kannski situr eftir eru þveranir, þar sem stígar og gangstéttir þvera götur. Þar vantar enn talsvert upp á öryggið, svo er líka að hafa betri ljósastýringar fyrir gangandi og sömuleiðis að hafa góða lýsingu á þessum stöðum.“

Sums staðar liggja hjólastígar samhliða akbrautum, svo sem við Ægissíðu og Sæbraut. Áður var reiknað með því að götulýsingin lýsti þá upp, en nýja LED-lýsingin er stefnuvirkari og því hafa birtuskilyrðin á stígunum versnað. Guðbjörg hjá Reykjavíkurborg. segir ljóst að það þurfi að bæta úr því. 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Göngubrú yfir Hringbraut.

 

Rafhlaupahjólin öllum hugleikin

Allir viðmælendur Spegilsins minnast sérstaklega á rafhlaupahjólin í samhengi við þróun umferðaröryggis, þau komu inn með trompi fyrir rúmum tveimur árum. 

„Kannski helstu áskoranirnar eru ný farartæki, þessi rafmagnshlaupahjól, vespurnar og rafmagnshjólin,“ segir Berglind hjá Eflu. 

Hún segir að fólk sé ekki vant því að ferðast á 25 kílómetra hraða og börn hafi ekki þroska til þess að greina hraða rétt fyrr en eftir 12 ára aldur. Í nágrannalöndum okkar sjáist varla börn á svona tækjum.

Runólfur hjá FÍB myndi vilja draga úr hámarkshraða rafmagnshlaupahjóla og setja höft á notkun þeirra um helgar og Árni hjá Landssambandi hjólreiðamanna segir hlaupahjólin ekki heyra undir hatt samtakanna þó vissulega séu þau nýtt sem samgöngumáti og þarfnist svipaðra innviða og hjól. Þau séu að hans mati óöruggari en reiðhjól, vegna smæðar dekkjanna, og að auki mikið notuð af reynslulitlum ungmennum og drukknu fólki. 

Guðbjörg segir að slys tengd rafskútum séu mörg en fæst alvarleg. Hugsanlega þurfi að fjalla sérstaklega um þær næst þegar umferðaráætlun borgarinnar verður uppfærð. „Það verður enn meiri áhersla á að yfirborðið þarf að vera nokkuð jafnt og slétt því þau eru viðkvæmari fyrir misfellum á yfirborðinu.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV