Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tólf kristniboðar flúðu úr gíslingu á Haítí

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Tólf kristniboðum tókst að flýja úr gíslingu glæpagengis á Haití í síðustu viku. Sextán Bandaríkjamönnum og Kanadamanni sem voru á vegum bandarísku samtakanna Christian Aid Ministries var rænt í október síðastliðnum.

Þá áttu þau leið um svæði þar sem harðskeytt glæpagengi sem gengur undir heitinu 300 Mazowo ræður ríkjum, austan höfuðborgarinnar Port-au-Prince. Kristniboðarnir höfðu verið við störf á munaðarleysingjahæli.

Í hópnum voru fimm börn, það yngsta átta mánaða en glæpamennirnir kröfðust einnar milljónar Bandaríkjadala í lausnargjald fyrir hvert þeirra.

Að sögn Weston Showalter, forvígismanns samtakanna fékk fólkið að borða og hreint drykkjarvatn en þvottavatnið var mengað sem varð til þess að sár spruttu upp umhverfis moskítóbit.

Showalter segir fólkið hafa varað foringja gíslatökumannanna við yfirvofandi dómi guðs létu þeir ekki af glæpaiðju sinni. Fimm gíslanna höfðu þegar verið látnir lausir, tveir í nóvember og þrír snemma í desember. Showalter vill ekki upplýsa hvort lausnargjald hafi verið reitt af hendi.

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins um flóttann segir að tólfmenningarnir hafi komist undan að næturlagi. Þeim tókst að komast fram hjá þeim sem stóðu á verði en þurftu að brjótast um skógi vaxið land klukkustundum saman og notuðu stjörnur himinsins til leiðsagnar.

Þegar dagaði gengu þau fram á manneskju sem gat hringt og tilkynnt yfirvöldum um að þau væru frjáls. Síðar flaug bandaríska strandgæslan með fólkið til Flórída í Bandaríkjunum og þau flest hafa nú hitt fjölskyldur sínar að nýju.