Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kannaði ekki fylgi áður en hann tók ákvörðun

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, ætlar ekki að gefa kost á sér á framboðslista flokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Eyþór segir að persónulegar ástæður liggi að baki, ekki pólitískar.

Vildi greina frá ákvörðuninni áður en stillt verður á lista

Það stefndi í oddvitaslag þegar Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti að hún stefndi á fyrsta sæti í prófkjöri flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Eyþór segist hafa tekið ákvörðunina óháð því með hvaða hætti sjálfstæðismenn velja á framboðslista í vor en hann hafi viljað greina frá henni áður en stillt yrði á lista. Hann segist ekki óttast niðurstöður prófkjörs, ákvörðunin sé fyrst og fremst persónuleg. 

„Þetta er bara persónuleg ákvörðun sem ég held að sé rétt og skynsamleg fyrir mig og mína. Þetta er löng kosningabarátta sem er framundan og þegar ég fann í hjartanu að þetta væri rétt ákvörðun þá ákvað ég að segja strax frá því en ekki bíða yfir jólin, " segir Eyþór. 

Kveður stjórnmálin sáttur en nú tekur fjölskyldan við

Eyþór kveðst gegna skyldum sínum út kjörtímabilið áður en hann kveður stjórnmálin að sinni. Hann gangi sáttur frá borði en nú ætli hann að snúa sér að fjölskyldunni og hugðarefnum sínum. Hann hafi ekki kannað fylgi sitt áður en hann tók þessa ákvörðun og bætir við að ekki liggi fyrir hver framboðsefnin verða í vor. 

„Ég er mjög sáttur við þetta kjörtímabil og samstarfið við mitt fólk og aðra. Og borgin er enn spennandi verkefni. Það er einfaldlega þannig að maður verður að vega og meta hvað maður á að gera og ég met það þannig að fjölskyldan og það sem stendur manni næst verði að vera í forgangi, " segir Eyþór.