Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Rúm 83% íslenskra bókatitla prentaðir erlendis

20.12.2021 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlutfall íslenskra bókatitla sem prentaðir eru erlendis hefur aldrei verið hærra en í ár samkvæmt könnun á vegum Bókasambands Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Bókasambandinu. Georg Páll Skúlason, formaður Grafíu, stéttarfélags í prent-og miðlunargreinum, telur þróunina ekki góða fyrir íslenskan prentiðnað.

Bókasamband Íslands hefur framkvæmt könnun á prentstað íslenskra bóka sem getið er í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda frá árinu 1998. Alls voru 112 titlar prentaðir innanlands á árinu samanborið við 563 titla erlendis. Hlutfall prentaðra bókartitla erlendis, rúmlega 83 prósent, hefur aldrei verið hærra, að sögn Georgs Páls Skúlasonar, formanns Grafíu, stéttarfélags í prent-og miðlunargreinum.

„Þetta er hæsta hlutfallið í raun og veru sem prentað hefur verið erlendis og við höfum mælt þetta frá 1998. Hlutfallið hefur verið að stíga í áttatíu prósentin svona síðustu fjögur ár" segir Georg.

Þróunin slæm fyrir íslenskan prentiðnað

Georg telur þróunina ekki góða fyrir íslenskan prentiðnað og segir erfitt að snúa henni við. Reikna megi með að verðið stýri þar mestu. Georg segir þá íslenskan prentiðnað kappkosta að bjóða upp á vistvæna prentun. Flestir titlarnir voru prentaðir í Evrópu en rúmlega níu prósent titlanna voru prentaðir í Asíu. 

„Stærsti hlutinn í Evrópu er prentaður í Lettlandi, Þýskaland kemur þar á eftir og svo Danmörk. Það eru svona þrjú efstu löndin áður en það kemur að Asíu, " segir Georg.