Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Einfalt og ástríðufullt

Mynd með færslu
 Mynd: Mono Town

Einfalt og ástríðufullt

17.12.2021 - 14:00

Höfundar

Time Vol 1., önnur plata Mono Town, er þekkilegasta verk frá fagmönnum fram í fingurgóma, segir Arnar Eggert Thoroddsen gagnrýnandi.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Mono Town er skipuð bræðrunum Berki og Daða Birgissonum sem spila á það sem þarf að spila á og með þeim er Bjarki Sigurðsson sem leikur á gítar og syngur. Sveitin gaf út plötu árið 2014, In The Eye Of The Storm, og var hún lofuð mjög, fékk íslensku tónlistarverðlaunin sem besta rokkplatan og lagið „Peacemaker“ þótti besta rokklagið.

Ég hef svo gaman af orðinu værðarvoð því það lýsir hlýju og þægindum og einhverju sem umlykur, tekur eiginlega utan um þig. Þannig er stemningin á plötunni dálítið. Þetta er til þess að gera einfalt popprokk en útfærslan er lykillinn. Útsetningar, útfærsla, upptaka og þeir hlutir allir. Platan opnar faðm sinn strax í fyrsta lagi þar sem lagið For us rúllar tignarlega af stað og áfram, gítarpikk í upphafi og löngunarfull, ástríðufull söngrödd Bjarka. Röddin gerir heilmikið fyrir plötuna, er hrá og angurvær og nánast umkomulaus á köflum. Hún fer ekki framhjá manni. Það er nettur áttundaáratugsblær yfir, í bland við Midlake jafnvel, og viðlagið er æði. Samsöngur sem virkar dásamlega. Höldum aðeins áfram með þessar flauelsbrúnu áttundaáratugsmyndir því þær eiga við. Because of You er í sígildum söngvaskáldagír, kallar fram meistara eins og Van Morrison (bassinn) og Neil Young og enn er söngurinn í senn kraftmikill og hrífandi.

Platan tikkar síðan áfram í þessum gír og mér verður einnig hugsað til aðila eins og Jet Black Joe og Pandóru, íslenskra sveita sem unnu gagngert með rokkarf áttunda áratugsins. Þessi hugskot koma endrum og eins, Mono Town vinnur ekki eins augljóslega með þessi áhrif, þráðurinn er ósýnilegri en hann er þarna. Sjá t.d. „Lazy Moon“, dægilegasta kassagítarballaða eins og nafnið gefur til kynna en strax á eftir kemur „Morning Rise Again“, leitt af ansi glúrnu orgelspili. Andinn yfir er afslappaður, eiginlega „hippískur“ og lagið rúllar áfram áreynslulaust og þægilega.

Samantekið er þetta hið þekkilegasta verk. Þeir sem að því standa eru fagmenn fram í fingurgóma, þeir bræður hafa unnið með fjöldanum öllum af íslenskum tónlistarmönnum í gegnum tíðina, og því gaman að sjá þá flagga sínu, sinni sýn og sínum tónsmíðum. Allur hljómur og hljóðfæraleikur er eðlilega í hæstu hæðum en mest munar auðvitað um lögin og heildarsvipinn sem tekur utan um hlustandann eins og ekkert sé og vaggar honum í styrkjandi værðarvoð næstu 36 mínúturnar eða svo.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Mono Town – Time Vol.1