Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sóttvarnajólin 2021, omíkrón og örvunarskammtar

Mynd: Unsplash / Unsplash
Margt er ólíkt með sóttvarnajólunum 2020 og 2021. Þegar landsmönnum var skipað inn í tíu manna jólakúlurnar í fyrra greindust örfá smit á degi hverjum. Nú er staðan allt önnur. Síðustu tvo daga hafa greinst fleiri smit innanlands en greindust allan desembermánuð í fyrra. Núverandi sóttvarnareglugerð rennur út tveimur dögum fyrir jól - og enn hafa ekki borist nein fyrirmæli að ofan um jólakúlugerð. Það ríkir óvissa, ekki síst vegna þess hvað omíkron-afbrigðið er í mikilli sókn í nágrannalöndunum.

Manstu jólakúlujólin? 

Spólum ár aftur í tímann og rifjum upp anda liðinna jóla, jólanna 2020. Jólakúlur voru mál málanna og ráðleggingar landlæknis og almannavarna voru á þessa leið: 

  • Eigum góðar stundir í okkar jólakúlu
  • Verndum viðkvæma hópa
  • Njótum rafrænna samverustunda
  • Stundum útivist í fámennum hópi
  • Verslum á netinu ef hægt er 
  • Kaupum máltíðir á veitingastöðum og tökum með heim
  • Sýnum varúð í ferðalögum milli landshluta

Jólin áttu helst að vera knúslaus, einn átti að skammta á diskana í jólaboðum og jólakúlan, hún mátti einungis telja tíu fullorðna, börn og þau sem fengið höfðu covid voru undanskilin.

Fimmtánfalt hærra nýgengi nú

Allan desembermánuð í fyrra greindust samtals 230 manns, að meðaltali átta á dag. Um jólin voru tæplega 90 í einangrun og 14 daga nýgengi var í kringum 30. Það er af hverjum hundrað þúsund íbúum höfðu 30 smitast af veirunni síðustu 14 daga á undan. Það voru í gildi strangar sóttvarnatakmarkanir, mun strangari en nú. 

Nú eru smitin margfalt fleiri, hafa verið um og yfir hundrað á dag og bara á síðustu tveimur dögum hafa fleiri greinst en greindust allan desember í fyrra. Það eru 1371 í einangrun, fimmtán sinnum fleiri en um jólin í fyrra og nýgengið er líka fimmtánfalt á við þá. 

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jólakúlan í fyrra.

 

Staðan er sumsé töluvert verri núna, en þó kannski ekki því í fyrra var ekkert bóluefni í boði, nú eru langflest tvísprautuð og mörg þrísprautuð. 

Hvernig verða jólin í ár? 

Þann 7. desember síðastliðinn ákvað Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, að fara að tilmælum sóttvarnalæknis og framlengja þágildandi sóttvarnareglugerð fram til miðvikudagsins 22. desember. Ástæðan var óvissa í kringum nýja omíkron-afbrigðið - hvort bóluefnin virkuðu gegn því og hvort það ylli alvarlegri sjúkdómi. Willum sagði að kæmu fram gögn um að omikrón-afbrigðið væri ekki jafn skætt og upphaflega var óttast yrði hægt að slaka á takmörkunum innan tveggja vikna og í minnisblaði Þórólfs var talað um hugsanlegar tilslakanir, komi í ljós að afbrigðið valdi ekki skæðum sjúkdómi. 

Staðan nú

 

Hér á Íslandi mega nú 50 koma saman, að minnsta kosti fram á miðvikudaginn næsta, 500 ef neikvæðu hraðprófi er framvísað, veitingastaðir og barir eiga að loka tíu, sundstaðir og líkamsræktarstöðvar mega taka á móti 75% af hámarksfjölda gesta og það er grímuskylda í flestum verslunum og alls staðar þar sem ekki er hægt að tryggja meters fjarlægð milli fólks. Ef horft er til Norðurlandanna sker Ísland sig úr að því leyti að hér er mikið lagt upp úr notkun hraðprófa. Í Noregi og Danmörku eru slík próf ekki forsenda þess að geta haldið stóra viðburði. Það má einfaldlega ekki halda þá. 

Þórólfur segir að hvert land hafi sinn háttinn á, hraðprófin séu 90% örugg og hvað varðar omíkrón greinist það seinna á hraðgreiningarprófi heldur en PCR-prófi. 

 

Ekki með hugann við tilslakanir nú

Hér fer smitum aftur fjölgandi, 171 greindust í dag, og þó delta-afbrigðið beri bylgjuna enn uppi virðist omíkron-afbrigðið nálgast úr öllum áttum. 

Tilslakanir eru Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni, ekki efst í huga. Hann er með minnisblað í smíðum, sendir það líklega á Willum um helgina, en vill sem fyrr lítið gefa upp um innihaldið áður en ráðherra er búinn að melta það. Nokkrum dögum fyrir jól ætti að fást á hreint hvernig jólin verða. 

Omíkron óvissan enn til staðar þó sumt hafi skýrst

Þórólfur segir myndina af omíkrón-afbrigðinu aðeins hafa skýrst. Það virðist vera allt að því tvöfalt meira smitandi en delta. Enn ríkir óvissa um hversu illa það leggst á fólk. „Veldur það vægari eða alvarlegri sjúkdómi eða hvað? Það er erfitt að fullyrða um það. Flestir sem hafa greinst með afbrigðið hafa verið með tiltölulega vægan sjúkdóm en þó er rapporterað í Suður-Afríku, mikil aukning á innlögnum á sjúkrahús. Hvort það er af völdum omíkrón er ekki ljóst. Flestir sem hafa verið að greinast með afbrigðið í nálægum löndum eru fullbólusettir með tvær sprautur. Við vitum ekki hvort það verndar gegn alvarlegum veikindum en allavega virðast flestir vera með vægari einkenni.“

Hann vísar í áhættumat Dana þar sem gert er ráð fyrir því að omíkron valdi helmingi síður alvarlegum veikindum en delta. „Það mun þá þýða að í stað þess að um 2% af þeim sem smitast af delta leggist inn verði það 1% þeirra sem smitast af omíkrón. Þetta er allt óljóst en ef alvarlegum veikindum fækkar þá er það þessi mikla útbreiðsla sem vegur upp á móti og gæti jafnvel endað í því að við fáum fleiri alvarlega veika á sama tímapunkti. Það er það sem menn hafa miklar áhyggjur af.“ 

Vill að fólk fari varlega

Þórólfur hvetur fólk til þess að fara varlega um jólin, það verði kannski ekki 10 manna jólakúlujól í ár en fólk eigi ekki heldur að kappkosta að hitta eins marga og reglugerðin kemur til með að leyfa. „Það er erfitt að spá hvað muni gerast og þess vegna held ég að við þurfum að vera mjög varkár á næstunni. Við sjáum bara hvað er að gerast á hinum Norðurlöndunum. Þar er faraldurinn að fara úr öllum böndum.“ 

Hlýða má á pistil Spegilsins um sóttvarnajólin 2021, jólakúlur og omíkron-stöðuna hér og annars staðar á Norðurlöndunum í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.