Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

O. J. Simpson er frjáls maður

FILE - In this May 14, 2013, file photo, O.J. Simpson sits during a break on the second day of an evidentiary hearing in Clark County District Court in Las Vegas. Los Angeles police are investigating a knife purportedly found some time ago at the former
 Mynd: AP - POOL
Bandaríski fyrrverandi kvikmyndaleikarinn og ruðningsstjarnan O.J. Simpson telst nú frjáls maður eftir að hann lauk fjögurra ára reynslulausn sinni sinni sem hófst árið 2017.

Til stóð að reynslulausn Simpsons lyki í febrúar næstkomandi en hann sat í fangelsi í níu ár fyrir vopnað rán sem hann framdi í Las Vegas árið 2009.

Hann hlaut 33 ára dóm fyrir það afbrot en hann var sýknaður af ákæru um að hafa orðið Nicole Brown, eiginkonu sinni og Ron Goldman vini hennar að bana árið 1994. 

Milljónir sjónvarpsáhorfenda fylgdust með flótta Simpsons 17. júní það ár í hvítum Ford Bronco jeppa um hraðbrautir Kaliforníu undan herskara lögreglubíla. Það var Al Cowlings, vinur Simpsons sem ók flóttabílnum.

Hann hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og að hann hafi heldur ekki verið á flótta þennan júnídag. Hann hunsaði þó kröfu lögreglu um að láta af flóttanum en fullyrti við rannsóknarlögreglumann að ætlun hans væri að heimsækja gröf Nicole. 

Poki sem innihélt vegabréf Simpsons, talsvert af reiðufé og skotvopn fannst við leit í bílnum eftir flóttann. Það varð til þess að orð Simpson voru mjög dregin í efa en ekkert af mununum var lagt fram í sakamálinu gegn honum.

Hins vegar var mjög deilt um hvort hanski sem fannst á morðstaðnum gæti tilheyrt hinum grunaða. Réttarhöldin yfir Simpson vöktu mikla athygli á sínum tíma. Kviðdómur í Los Angeles í Kaliforníu úrskurðaði um sakleysi Simpsons árið 1995. 

Mjög var deilt um þau málalok en árið 1997 varð niðurstaða einkamáls gegn Simpson sú að hann bæri ábyrgð á dauða Brown og Goldman. Simpson var gert að greiða fjölskyldu Goldmans 33,5 milljónir Bandaríkjadala í bætur. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV