Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.
Legurýmum á geðdeild fækkar um tíu prósent um áramót
14.12.2021 - 06:28
Tíu langleguplássum á geðdeild Landspítalans á Kleppi verður lokað tímabundið frá áramótum vegna manneklu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þar er haft eftir Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, framkvæmdastjóra skrifstofu forstjóra spítalans, að ástæða þessa sé „verulegur skortur á hjúkrunarfræðingum og læknum í geðþjónustu Landspítala.“
Um leið og langlegurýmunum tíu verður lokað á Kleppi verður ein deild í geðdeildarbyggingu sjúkrahússins á Hringbraut „þróuð áfram sem sérhæfð legudeild fyrir einstaklinga með geðrofssjúkdóma,“ að sögn Önnu. Þeirri deild verður ætlað að taka við fólki í bráðu geðrofi og sinna meðferð þess frá innlögn til útskriftar. Með þessum breytingum fækkar legurýmum geðteildar um tíu prósent, úr einu hundraði niður í níutíu.