Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Birtingarmynd langvarandi sveltis

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir ákvörðun Landspítalans um að loka leguplássum á Kleppi birtingarmynd geðheilbrigðiskerfis sem hafi verið svelt um margra ára skeið.

Tíu langleguplássum á geðdeild Landspítalans á Kleppi verður lokað tímabundið um áramót en sú deild hefur að miklu leyti þjónað ungu fólki með geðrofstengdan vanda og fíknivanda. Þess í stað verður legudeild á Hringbraut þróuð áfram sem sérhæfð legudeild fyrir einstaklinga í bráðu geðrofi. Forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans sagði í hádegisfréttum RÚV að ákvörðunin væri óskemmtileg en nauðsynleg því erfitt væri að manna stöður á geðheilbrigðissviði.

Formaður Geðhjálpar segir aðgerðirnar einfaldlega birtingarmynd geðheilbrigðismála í landinu. Kerfið sé fjársvelt, starfsmannavelta mikil og sérfræðiþekkingu skorti.

„Og þegar það er búið að vera svo árum skiptir og svo kemur covid og allt inn í þetta þá verður eitthvað undan að láta. Það er verið að byggja nýjan spítala en geðdeildin er fyrir utan hann. Hugmyndafræðin inni á geðdeildum er gamaldags að okkar mati og við erum bara að verða fyrir barðinu á þessu.“

Grímur segir birtingarmyndirnar fleiri. Þannig séu þeir sem fóru í viðtöl hjá heilsugæslunni í sumar að fá svör nú í desember um að þeir komist í geðheilsuteymi í apríl. Byggingarnar við Hringbraut og Klepp séu löngu úreltar og þyrnir í augum notenda. Endurskoða þurfi geðheilbrigðismál frá grunni og fjármagn að fylgja, enda geðheilbrigi eitt mest aðkallandi lýðheilsumál 21. aldarinnar. „Þetta er dánarorsök ungs fólks, ein af stóru dánarorsökunum og hefur bara verið slæmt undanfarin ár og lítið verið gert.“