Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sameining á Suðurlandi úr sögunni í bili

vík í mýrdal, mýrdalshreppur, ferðaþjónusta, mýrdalur
 Mynd: Rúv.is/Þór
Ekkert verður af umleitunum sveitarstjórnar Skaftárhrepps um sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hafnaði tillögunni og meirihluti íbúa Rangárþings ytra vill hætta viðræðum í bili.

Samhliða Alþingiskosningum seinasta haust var kosið um sameiningu fimm sveitarfélaga í Rangárvallasýslu allri og Vestur-Skaftafellssýslu. Til þess að sameiningin fengi brautargengi þurfti meirihluti íbúa í hverju sveitarfélagi að samþykkja hana. Tillagan var samþykkt í fjórum af fimm sveitarfélögum en felld í Ásahreppi.

Í október óskaði sveitarstjórn Skaftárhrepps eftir því að kannaður yrði möguleiki á sameiningu sveitarfélaganna fjögurra sem samþykktu sameininguna, þ.e.a.s. Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra og Rangárþing ytra. Síðan þá hafa sveitarstjórnirnar tekið málið fyrir án þess að taka afstöðu til þess. Í seinasta mánuði hins vegar bókaði sveitarstjórn Mýrdalshrepps eftirfarandi á fundi sínum:

„Sveitarstjórn þakkar fyrir erindið en telur eðlilegt að beðið verði með frekari viðræður að svo stöddu og þess í stað lögð áhersla á framgang verkefnisins Stafrænt Suðurlands.“ segir í bókuninni. 

Sveitarstjórn Rangárþings eystra tók málið einnig fyrir á fundi sínum í seinustu viku. Þar segir að í ljósi þess að Mýrdælingar hafi hafnað tillögunni sé áformunum sjálfhætt. Fulltrúar D-lista segja í bókun sinni að þeir hefðu gjarnan vilja taka þátt í sameiningarviðræðunum þar sem mikil vinna hafi farið í sameininguna undanfarin ár. Leggja þau til að gerð verði skoðanakönnun meðal íbúa sveitarfélagsins til að kanna hug þeirra til sameiningar. Fulltrúar B-lista benda hins vegar á það í bókun sinni um málið að fimm mánuðir séu til sveitarstjórnarkosninga og því ekki forsendur til að kanna viðhorf íbúa á þessum tímapunkti. Eðlilegt sé að fela nýrri sveitarstjórn þá ákvörðun þegar þar að kemur.

Í Rangárþingi ytra var gerð skoðanakönnun meðal íbúa eftir að það lá fyrir að Mýrdalshreppur myndi ekki taka þátt í viðræðunum. Tilgangurinn var að kanna hug íbúanna til næstu skrefa. 

Þar kemur fram að rúmlega 21 prósent vilja hefja viðræður um sameiningu þriggja sveitarfélaga (við Rangárþing eystra og Skaftárhrepp), rúmlega 35 prósent vilja að Rangárþing eystra og ytra verði sameinuð en rúmlega 43 prósent að sameiningarviðræðum verði hætt að sinni. 

„Niðurstöðurnar gefa til kynna að ekki sé mikill áhugi fyrir því að taka þátt í þeim viðræðum sem Skaftárhreppur óskar eftir. Sveitarstjórn hafnar því erindi Skaftárhrepps.“ segir í bókun sveitarstjórnar Rangárþings ytra. 

603 af 978 íbúum tóku þátt og var svarhlutfallið því 61,7 prósent.