Nokkrir jarðskjálftar hafa mælst suðsuðvestan við Vatnafjöll í dag, sunnan Heklu. Sá stærsti var 3,5 að stærð.
Þrír skjálftar um 3 að stærð urðu með skömmu millibili um klukkan 16. Klukkan 4 mínútur yfir varð skjálfti sem mældist 3 að stærð og þremur mínútum síðar annar af stærðinni 3,2 og aðeins mínútu síðar varð svo sá stærsti, 3,5 að stærð. Skjálftarnir mældust allir á um fimm kílómetra dýpi um 2,3 kílómetra suðsuðvestan við Vatnafjöll.
Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðings á vakt Veðurstofunnar eru upptökin á því svæði þar sem skjálftahrina hefur staðið yfir síðan í haust og engin merki sjást um gosóróa.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að sex skjálftar hafi mælst á sjö mínútna tímabili.