Níutíu og fjórir hafa fundist látnir eftir skýstrókana þrjátíu sem fóru yfir sex ríki á föstudag og aðfaranótt laugardags. Þar af eru áttatíu látnir í Kentucky-ríki. „Vinur minn sagði mér að dómshúsið væri farið og að hann stefndi á húsið mitt. Mér kom svona aldrei í hug; kannski að þakspónn eða tveir færu. En það fór alveg með mig sem skall á í morgun,“ sagði Barbara Patterson, íbúi í Mayfield, tíu þúsund manna bæ í Kentucky sem fór verst út úr veðrinu. Eins og margir þar missti hún heimili sitt í veðurofsanum. „Það eru bæði góðar og slæmar minningar. En ég held að það verði erfiðast að fara héðan,“ segir hún um húsið sitt.
Þegar veðrinu slotaði flaug ríkisstjóri Kentucky til bæjarins. Þar er umhorfs eins og eftir kjarnorkusprengju. „Eyðileggingin er slík að ég hef aldrei séð annað eins á allri minni ævi, ég kem varla orðum að því,“ segir Andy Beshear, ríkisstjóri Kentucky.
Hundrað og tíu manns voru við störf í kertaverksmiðju í Mayfield þegar skýstrókur skall á henni. Fjörutíu manns hefur verið bjargað. Tuga er leitað. „Það er kraftaverk ef fleiri finnast á lífi þarna,“ sagði ríkisstjórinn.