Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skýstrókar á nýjum slóðum mögulega vegna veðurbreytinga

12.12.2021 - 19:40
Mynd: EPA-EFE / EPA
Öflugir skýstrókar eru sjaldgæfir á þeim slóðum í Bandaríkjunum þar sem þeir gengu yfir um helgina, að sögn Elínar Bjarkar Jónasdóttur, veðurfræðings, og því hafi fólk ekki verið viðbúið. Kenningar eru uppi um að breytingar á veðurfari valdi þessum öfgum. Tuga er leitað í rústum í kappi við tímann. 

Níutíu og fjórir hafa fundist látnir eftir skýstrókana þrjátíu sem fóru yfir sex ríki á föstudag og aðfaranótt laugardags. Þar af eru áttatíu látnir í Kentucky-ríki. „Vinur minn sagði mér að dómshúsið væri farið og að hann stefndi á húsið mitt. Mér kom svona aldrei í hug; kannski að þakspónn eða tveir færu. En það fór alveg með mig sem skall á í morgun,“ sagði Barbara Patterson, íbúi í Mayfield, tíu þúsund manna bæ í Kentucky sem fór verst út úr veðrinu. Eins og margir þar missti hún heimili sitt í veðurofsanum. „Það eru bæði góðar og slæmar minningar. En ég held að það verði erfiðast að fara héðan,“ segir hún um húsið sitt.

Þegar veðrinu slotaði flaug ríkisstjóri Kentucky til bæjarins. Þar er umhorfs eins og eftir kjarnorkusprengju. „Eyðileggingin er slík að ég hef aldrei séð annað eins á allri minni ævi, ég kem varla orðum að því,“ segir Andy Beshear, ríkisstjóri Kentucky.

Hundrað og tíu manns voru við störf í kertaverksmiðju í Mayfield þegar skýstrókur skall á henni. Fjörutíu manns hefur verið bjargað. Tuga er leitað. „Það er kraftaverk ef fleiri finnast á lífi þarna,“ sagði ríkisstjórinn.

Mynd með færslu
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur.  Mynd: Skjáskot - RÚV

Bandaríkjaforseti hefur falið Umhverfisstofnun Bandaríkjanna að kanna hvort óveðrið megi rekja til hlýnunar jarðar og loftslagsbreytinga. En er vitað hvort þetta tengist? „Já, það hafa verið uppi kenningar um að hlýnun jarðar verði til þess að tiltölulega afmarkað belti í Bandaríkjunum sem hefur hingað til verið kallað tornado-alley sem fer í gegnum Texas og Oklahoma, til dæmis, að það færist austur og einmitt inn á þetta svæði í Tennessee-Valley og þar í kring. Það virðist vera að raungerast núna, bæði vegna þess að þetta er rammvitlaus árstíð fyrir svona veður og eiginlega þó þetta væri rétt árstíð þá eru yfirleitt ekki svona ofboðslega miklir skýstrókar á þessum slóðum. Þannig að það eru uppi kenningar um að það hljóti að vera einhverjar breytingar sem að valda þessu,“ segir Elín Björk, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Skýstrókar séu algengari á vorin og haustin. En þeir geti komið alveg fram á sumar. Það séu sögulegar heimildir um skýstróka, einn og einn á þessum slóðum, nærri Arkansas og Kentucky og jafnvel í Ohio. „En ekki stormar sem eru á jörðinni í þúsund kílómetra og valda þessum gríðarlegu skemmdum.“

epa09638458 Buildings are damaged by tornados in Mayfield, Kentucky, USA, 12 December 2021. Large storms overnight on 10 December generated multiple tornados along a 200 mile path across six U.S. states, reportedly killing over 70 people.  EPA-EFE/TANNEN MAURY
 Mynd: EPA

Greint var frá því í gær að einn strókurinn hafi farið með jörðinni um þrjú hundruð kílómetra leið, sem þykir mjög mikið. Stormarnir í kringum hann fóru með jörðinni um þúsund kílómetra leið sem Elín Björk segir sjaldgæft. Líftími skýstróka er yfirleitt talinn í mínútum eða tugum mínútna. Það að þeir fari 250 til 300 kílómetra leið og lifi í nokkra klukkutíma, eins og gerðist um helgina, sé með því mesta sem þekkist, segir hún. 

Meðalvindhraði 80 til 90 metrar á sekúndu

Strókarnir fá orku úr nærliggjandi veðri. Elín Björk segir að að vissu leyti sé hægt að líkja þeim við djúpar lægðir hér á landi nema þeir séu miklu þéttari og vindurinn meiri. Talið sé að meðalvindhraði strókanna um helgina, sem voru hvað verstir, hafi verið 80 til 90 metrar á sekúndu. 

Þar sem veður sem þessi eru óvanaleg á nákvæmlega þessum slóðum hafi fólk ekki endilega verið viðbúið. „Maður sér núna að það eru alls staðar svona steyptar plötur sem eru grunnar húsa en annars staðar, þar sem þetta er algengara, þá er fólk oftast með kjallara og þá hefur það eitthvað skjól.“ Svo virðist vera núna að veðrið hafi verið það slæmt að meir að segja þar sem eru skýli neðanjarðar hafi stormarnir grafið sig niður. „Það eru bara rákir sem sjást á gervitunglamyndum í jörðinni þarna þar sem þetta varð verst,“ segir hún. 

Strókarnir verða til við átök hita og kulda

Skýjastrókar myndast eftir átök milli hlýrra og kaldra loftmassa. Elín Björk bendir á að til Arkansas hafi komið hlýr og rakur loftmassi alla leið úr Mexíkóflóa. Hann hafi farið yfir slétturnar og umbreyst í þurran og orkumikinn massa. „Svo kemur rosalega kalt loft úr norðri sem veldur því að þetta gerist. Það verða sérstakar aðstæður í andrúmsloftinu og þessi stormur byggist upp og endist svo alveg ótrúlega.“