Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Lausn fiskveiðideilu Breta og ESB í augsýn

12.12.2021 - 06:12
epaselect epa08411751 Ship's crew members Jean-Baptiste (L) and Tomy (R) pull up the dredger onboard the fishing boat Gros Minet near Le Havre, France, 07 May 2020 (issued 09 May 2020). The French fishing boat Gros Minet has been working since the beginning of the confinement in order to provide fish as France was under lockdown measures taken in an attempt to stop the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/YOAN VALAT  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
 Mynd: epa
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kveðst bjartsýn á að lausn fiskveiðideilu sambandsins við Breta sé innan seilingar. Deilan snýst um veiðiheimildir báta frá aðildarríkjum sambandsins, einkum Frakklandi, í lögsögu Breta á Ermarsundi. Kveðið er á um þessi réttindi í Brexit-samningnum en töluverður dráttur hefur orðið á endanlegri útfærslu og veitingu veiðileyfanna.

Til stóð að ljúka ferlinu á miðnætti á föstudag en það gekk ekki eftir þrátt fyrir hótanir Frakka um að fara með málið fyrir dómstóla. Þá voru veiðileyfi til 104 franskra fiskibáta enn óafgreidd, samkvæmt bókum Frakka og ESB.

Í tilkynningu sem framkvæmdastjórnin sendi frá sér í gærkvöld segir að 93 prósent allra umsaminna veiðileyfa hafi verið gefin út áður en lokafresturinn rann út og að fjöldi veiðileyfa til viðbótar hafi verið gefinn út í gær, laugardag. Nú sé unnið að því að greiða úr því sem út af stendur.

Reiptog Breta og Frakka um fiskveiðiréttindi hinna síðarnefndu í breskri lögsögu hefur staðið mánuðum saman. Hafa deilurnar ítrekað leitt til hnútukasts og núnings milli æðstu ráðamanna beggja vegna Ermarsundsins og mótmælaaðgerða franskra sjómanna, sem óttast hafa um lífsviðurværi sitt.