Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skemmtilegt skynvillupopp

Mynd með færslu
 Mynd: Teitur Magnússon - 33

Skemmtilegt skynvillupopp

10.12.2021 - 10:00

Höfundar

33 er nafnið á þriðju plötu Teits. Tónlistin er á vissan hátt aðgengilegri, en samt alls ekki. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Teitur sló óforvarandis í gegn með fyrstu plötu sinni, 27 (2014). Það var næstum því eitthvað bernskt við hana, knöpp lög og til þess að gera ægieinföld, með rætur í íslenskri dægur- og alþýðutónlist áttunda áratugarins (með dassi af reggíi). Lög eins og „Vinur vina minna“ og „Nenni“ glumdu á öldum ljósvakans og platan var aukinheldur tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna. Þægilegt verk, afslappað og tímalaust, en aldrei ódýrt. Glæst byrjun á ferli. Orna kom svo út fjórum árum síðar. Meiri vinnsla og fleiri rásir en grunnurinn sá sami. Á yfirborðinu áhlýðileg þjóðlagakennd poppplata en allt smávegis á skakk og skjön líka.

Daníel Böðvarsson stýrði upptökum á 33 og Styrmir Hauksson hljóðblandaði. Glenn Schick hljómjafnaði. Lög og textar koma víða að. Samstarfsmaður Teits til margra ára, Skarphéðinn Bergþóruson, kemur þannig að fjórum textum en svo eiga stórskáld á borð við Halldór Laxness, Stefán frá Hvítadal og Bertel E.Ó. Þorleifsson yrkingar. Lög á Teitur, utan að tvö þjóðlög gera vart við sig og svo eru tvö lög unnin í samvinnu við Mads Mouritz og Bjarna Daníel Þorvaldsson.

Teitur fjarlægist örugglega 27, og það á meðvitaðan hátt, sem er nú ekki nema eðlilegt. Þetta er „Teits“-legt allt saman en fjölskrúðugheitin eru að sama að skapi ærin og hafa aldrei verið meiri.

Upphafslagið, „Líft í mars“, er líklega meðvitaður inngangur að þessari plötu. Áhlýðilegt popp að hætti Teits, íslenskur texti, og þessi skírskotun til samtímalistamanna eins og Prins Póló og Mugison og gamalla hetja eins og Mannakorns. Hljómur er hlýr og traustur og spilamennska upp á tíu. Tökum fleiri dæmi. „Háfjöllin“ eru reggíkrydduð og Mr. Silla syngur bakrödd. „Dýravísur“ er þjóðlagið kunna og Teitur fer afskaplega vel með. Hressileg, kröftug útsetning, gömlum arfi gefið nýtt líf (á síðustu plötu var það „Hættu að gráta“ og „Skriftargangur“). „Sloppurinn“ er værðarleg indístemma enda Bjarni Daníel úr Supersport! í heimsókn. „Skrýtið“ er… ja, skrýtnasta lag Teits til þessa. Hér er indírokk á ferðinni, með tilvísunum í tíunda áratugs hetjur eins og My Bloody Valentine og Teenage Fanclub. Hví ekki?

Platan endar á „Spegill“, snoturt lag við texta Skarphéðins. „Ég elska bara þig og þú mátt vera með / nema þegar ég verð upptekinn af mér.“ Dásamlegar línur, flottur „spegill“ á þessa sjálfsuppteknu tíma sem við lifum. Sterk plata frá Teiti. Viðfelldin dægurtónlist sem ornar eyrum en býr um leið yfir dýpt. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Teitur, Teitur, haltu mér

Tónlist

Teitur Magnússon á skriftastóli

Tónlist

Ormurinn búinn að bíta í skottið á sér