Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Áfrýjunardómstóll hafnar kröfu Trumps um gagnaleynd

epa09623644 Supporters of US President Donald J. Trump in the Capitol Rotunda after breaching Capitol security in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Protesters entered the US Capitol where the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden took place.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hafnaði í gær kröfu Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að banna skjalasafni Hvíta hússins að afhenda fjölda gagna frá forsetatíð hans, sem ætlað er að varpa ljósi á atburðarásina í aðdraganda árásarinnar á þinghúsið í Washington í ársbyrjun.

Samkvæmt úrskurði dómstólsins ber skjalasafninu að koma gögnunum til þingnefndarinnar sem er að fara í saumana á því sem gerðist við og í þinghúsinu 6. janúar síðastliðinn, þegar þúsundir æstra stuðningsmanna Trumps réðust þar inn, unnu margvísleg skemmdarverk og ógnuðu þingmönnum, starfsfólki þingsins og lögreglumönnum. 

Allt í allt eru það um 700 skjöl af ýmsu tagi, sem Trump vill halda frá nefndinni. Þar á meðal eru punktar og minnismiðar náinna ráðgjafa og aðstoðarfólks Trumps, minnisblað upplýsingafulltrúa Hvíta hússins og uppkast að ræðunni sem forsetinn flutti stuðningsfólki sínu þennan dag. Líklegt þykir að Trump áfrýi niðurstöðunni til Hæstaréttar.