Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Viðbúnir straumi kvenna sem æskja þungunarrofs

Mynd með færslu
 Mynd:
Samtök meira en 40 stofnana í Kalíforníu í Bandaríkjunum vinna nú að gerð áætlunar um hvernig unnt verði að taka á móti konum sem sækjast eftir þungunarofi, annars staðar frá í landinu.

Gavin Newsom ríkisstjóri og aðrir kjörnir fulltrúar úr röðum Demókrataflokksins styðja hugmyndirnar í ljósi þess að Hæstiréttur gæti fellt úr gildi næstum hálfrar aldar óskoraðan rétt kvenna til þungunarrofs.

Útlit er fyrir að rétturinn sé reiðubúinn að staðfesta lög í Mississippi-ríki sem banna þungunarrof eftir fimmtándu viku meðgöngu. Það gengi í berhögg við fordæmisgefandi úrskurð Hæstaréttar í máli Roe gegn Wade frá árinu 1973 en niðurstaða hans varð til þess að ólögmætt væri að banna þungunarrof.

Guttmacher-stofnunin, fræðimannahópur sem styður rétt til þungunarrofs, telur að fari svo verði öruggt eða líklegt að 26 ríki banni það. Þá verði fátt um úrræði fyrir konur annað en fara þangað sem þungunarrof er leyft.

Samtökin, California Future of Abortion (FAB), sem stofnuð voru í lok september, vilja setja fordæmi fyrir önnur ríki komi til þess. Þau hyggjast bæta við húsnæði og tryggja þeim fjármagn sem þurfa að ferðast um langan veg.