Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sakar seðlabankastjóra um ritstuld

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bergsveinn Birgisson fræðimaður og rithöfundur sakar Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra um ritstuld. Ásgeir gaf nýverið út bókina Eyjan hans Ingólfs, sem fjallar um landnám Íslands. Yfirlýsingar er að vænta frá Ásgeiri.

Bergsveinn segir Ásgeir styðjast mjög við verk sitt Leitina að svarta víkingnum án þess að geta þess. Bergsveinn segir um hugmyndastuld að ræða, fremur en beinar tilvitnanir, þó stundum stappi nærri. 

Bergsveinn setur í bókinni fram heildartilgátu um frumlandnám Íslands, veiðimenning hafi einkennt það en áhersla hafi aukist á landbúnað þegar veiði þvarr. Sú tilgáta endurómi gegnum allt verk Ásgeirs.

„Svo ánægjulegt sem það annars er fyrir höfund að sjá tilgátur sínar og hugsanir reifaðar í bókum annarra, er það að sama skapi martröð að sjá aðra setja fram tilgátur manns án þess að umræddra verka sé getið.“

Í greinargerð Bergsveins sem birtist á Vísi segir hann engan mann saka annan um ritstuld að gamni sínu en hann kveðst telja ritstuld Ásgeirs grafalvarlegt mál í ljósi stöðu hans sem seðlabankastjóra. Hann hafi lagt málið fyrir Siðanefnd Háskóla Íslands og Nefndar um vandaða starfshætti í vísindum.

Fréttastofa náði sambandi við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, sem sagði yfirlýsingar að vænta frá sér vegna málsins.     

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV