Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hefur áhuga á að vera áfram bæjarstjóri á Akureyri

08.12.2021 - 09:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri hefur hug á að vera áfram bæjarstjóri ef til hennar verður leitað eftir kosningar. Ásthildur sem áður var bæjarstjóri í Vesturbyggð var ráðin til Akureyrar árið 2018.

Var áður bæjarstjóri í Vesturbyggð

Ásthildur greindi frá þessi á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún hefur komið víða við. Auk bæjarstjórastarfsins í Vesturbyggð var hún áður verkefnisstjóri  á rektorsskrifstofu og markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands. Þá var hún verkefnisstjóri við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og atvinnuráðgjafi hjá SSV-þróun og ráðgjöf.

„Það er nýrrar bæjarstjórnar að ákveða“

Ásthildur segist hafa notið þess að starfa sem bæjarstjóri á Akureyri síðustu ár. „Akureyri er eitt glæsilegasta sveitarfélag landsins, hver vill ekki vera bæjarstjóri hér.“

Þannig að þú ert alveg klár ef til þín verður leitað?

„Það er nýrrar bæjarstjórnar að ákveða hver verður þeirra bæjarstjóri en ég hef notið þess einstaklega að fá að vera bæjarstjóri hér og er mjög stolt af því hlutverki. Myndi auðmjúk taka við því ef það væri leitað til mín.“