Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hefur áhrif á arðgreiðslur bankanna

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Samkvæmt nýrri stefnu Seðlabankans verða gerðar ríkari kröfur til banka um hátt eiginfjárhlutfall. Stefnan hefur meðal annars hamlandi áhrif á arðgreiðslur bankanna.

„Við erum að senda þau skilaboð að við viljum sjá bankakerfi með mikið eigið fé í þessu landi,“ Segir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri um innleiðingu svokallaðrar MREL-kröfu sem bankinn hefur innleitt. Hún felur í sér að eigið fé og tilteknar skuldir fjármálafyrirtækis nægi til að mæta ófyrirséðu tapi og tryggja að ef fyrirtækið lendir í vandræðum lendi tapið ekki á skattgreiðendum.

Eigið fé íslensku bankanna er hátt í alþjóðlegum samanburði, svo hátt raunar að forstjóri Arion banka hefur sagt að bankinn sé með of mikið eigið fé og til að grynnka á því þurfi að stórauka arðgreiðslur og uppkaup á eigin bréfum.

Ásgeir er spurður hvort þessi nýja krafa Seðlabankans kann að hafa áhrif á þær fyrirætlanir: „Já, það gerir það. Rekstur þeirra gengur vel en það er engin spurning um það að við viljum að þeir séu með mikið eigið fé. Þeir geta alveg kvartað yfir því, það er þeirra réttur en þetta er okkar afstaða.“

Seðlabankastjóri bendir á að margar af þeim aðgerðum sem gripið var til í faraldrinum hafi hjálpað bönkunum, til að mynda hafi Seðlabankinn prentað peninga til að fjármagna stuðningslán sem voru með ríkisábyrgð. Það hafi varið bankana fyrir útlánatapi.

Þá sé Seðlabankinn að gefa bönkunum ákveðið svigrúm. Það sé vilji Seðlabankans að bankarnir séu reknir með innlánum og eigin fé en ekki skuldabréfaútgáfu eins og tíðkast víða erlendis.