Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Áætlað að brú yfir Fossvog verði tilbúin í lok árs 2024

08.12.2021 - 20:07
Áætlað er að brúin yfir Fossvog verði tilbúin í lok árs 2024. Framkvæmdir hefjast um leið og hönnunarvinnu er að fullu lokið. Kostnaðurinn liggur ekki fyrir.

Brú yfir Fossvoginn verður loks að veruleika, en í dag var kynnt hvernig hún á að líta út. 

Vinningstillagan kallast Alda og var unnin af teymi frá verkfræðistofunni Eflu í samstarfi við BEAM Architects. Brúarsmíðin er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Kópavogsbæjar, Reykjavíkurborgar og Betri samgangna ohf., sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

„Vinningstillagan gerir ráð fyrir brú sem er með hraðhjólastíg, fyrir þá sem vilja komast hratt yfir, það eru reinar fyrir almenningssamgöngur og Borgarlínu á henni miðri og á hinum endanum á brúnni er gert ráð fyrir stíg fyrir þá sem vilja ganga eða hjóla hægar,“ segir Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðis hjá Vegagerðinni.

Brúin verður ekki ætluð bifreiðum öðrum en Strætó og síðar Borgarlínu, en í neyðartilvikum verður hægt að opna hana fyrir viðbragðsaðila.

„Þetta er hlutur af því sem við köllum fyrstu lotu Borgarlínu, sem er leið Borgarlínu sem liggur frá Hamraborg og yfir í miðbæinn og tengir þá saman Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands og Landspítalann og heldur svo áfram frá miðbænum og eftir Suðurlandsbrautinni upp á Ártúnshöfða þannig að þetta er mjög stór partur í því að koma Borgarlínu og nýja leiðarkerfi Strætó á koppinn,“ segir Bryndís.

Bryndís segir að kostnaðurinn liggi ekki alveg fyrir. „Við erum ekki alveg búin að sjá í gegnum það, það var partur af því sem vinningsteymin áttu að koma með, áætlanir um framkvæmdarkostnað og framkvæmdartíma. Við eigum eftir að rýna nánar í lausnirnar.“

Brúin er liður í samgöngusáttmálanum milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. „Það er samgöngusáttmálinn sem mun standa straum af uppbyggingu brúarinnar,“ segir Bryndís.