Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Við tökum þessu mjög alvarlega“

„Við tökum þessu mjög alvarlega“

07.12.2021 - 20:26
Tveir fyrrverandi formenn KSÍ eru gagnrýndir í skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ um ofbeldismál sem ratað hafa inn á borð sambandsins. Vitneskja var innan KSÍ um alls fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir sem störfuðu fyrir sambandið hefðu beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi á árunum 2010 til 2021. Núverandi formaður KSÍ segir hreyfinguna taka málin mjög alvarlega.

Helstu niðurstöður skýrslunnar, sem er 107 síður og byggð á viðtölum við um 80 manns, eru að vissulega hafi verið vitneskja innan KSÍ um frásagnir af hópnauðgunarmáli þar sem tveir þáverandi landsliðsmenn komu við sögu. Yfirlýsingar Guðna Bergssonar, þáverandi formanns KSÍ sem komu fram í fjölmiðlum síðsumars hafi verið villandi hvað það mál varðar og leitt til afsagnar hans.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður úttektarnefndar KSÍ:

„Að öðru leyti verður ekki séð að það hafi ekki verið vitneskja innan stjórnar KSÍ, eða það að starfsmenn eða framkvæmdastjórn hafi verið sátt við þessar yfirlýsingar formannsins. Þá fundum við heldur ekki nein merki til þess almennt önnur í formannstíð Guðna Bergssonar að það hafi ríkt einhver sérstök þöggunar- eða nauðgunarmenning umfram það sem almennt gerist í íslensku samfélagi.“
 
Úttektarnefndin gerir athugasemd við og telur óeðlilegt að Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður KSÍ hafi árið 2016 leitað til almannatengils í kjölfar þess að hann frétti af því að lögregla hafi verið kölluð að dvalarstað landsliðsmanns vegna grunsemda um heimilisofbeldi á grundvelli þess að það varðaði einkalíf hans en ekki KSÍ.

„Það gilda ákveðnar reglur sem leiða út frá landslögum um hvernig KSÍ getur tekið við tilkynningum. Til marks um það þá getur KSÍ ekki skv. persónuverndarlögum verið að fjalla um eitthvað út frá nafnlausum tilkynningum.“

Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur sem sat í nefndinni, segir að betra hefði verið ef það hefðu verið skýrari viðmið um það hvernig ætti að taka á svona málum. Það hefði vissulega hjálpað. 

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ fagnar því að skýrslan sé komin fram.

„Og ég fagna þessari vinnu sem að fyrri stjórn KSÍ setti í gang. Mér finnst þetta mjög mikilvægt. Við erum búin að fá í hendurnar mjög vel unna og vandaða skýrslu sem mun nýtast okkur mjög vel í þeirri vinnu sem framundan er og þeirri vinnu sem hafin er. Það varð svona ímyndarhrun en það er nú margt í þessari skýrslu sem að við fyrstu sýn, alla vega miðað við fréttatilkynningu nefndarinnar sem að gerir það að verkum að þetta er nú ekki alveg eins slæmt og margir héldu.“

En hvað viltu segja við fórnarlömbin?

„Ég er bara auðmjúk gagnvart þeim. Þetta er erfitt fyrir þau og ég veit það alveg að þetta er ekkert létt að koma og tala um þessi mál þannig að ég er bara með þakklæti í hjarta.“

Heldur þú að það séu einhver fórnarlömb sem líti kannski á þessa úttekt og þessa niðurstöðu úttektarnefndarinnar sem bara blauta tusku í andlitið? Þ.e.a.s. að þau hefðu viljað ganga lengra og fá harðari niðurstöðu og þá meiri aðgerðir í kjölfarið? 

„Við tökum þessu mjög alvarlega. Þetta er flókið og þetta er erfitt en þetta er eitthvað sem verður komið í lag hjá KSÍ og hjá íþróttahreyfingunni og  ég held að þolendur eigi að geta verið og öruggir þegar að þeir leita til okkar og öruggir í því að við munum taka á þeirra málum.“