Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Væg veikindi omíkron gætu opnað dyr fyrir örvaða

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að ef það kemur í ljós að omíkron-afbrigðið veldur ekki skæðum sjúkdómi og að bólusetning og fyrra smit af völdum COVID-19 verndar séu komnar faglegar forsendur til að slaka á reglum fyrir þá sem fengið hafa örvunarskammt og þau börn sem eru fullbólusett.

Þetta kemur fram í minnisblaði Þórólfs til heilbrigðisráðherra. 

Hann tekur samt skýrt fram að nú séu miklir óvissutímar, bæði hvað varðar núverandi bylgju af völdum delta-afbrigðisins og þá þróun sem kann að verða með tilkomu omíkron-afbrigðsins.  „Sú staða kann að koma upp að omicron afbrigðið sé meira smitandi en fyrri afbrigði, valdi verri sjúkdómi og að bóluefni og fyrri sýking verndi ekki gegn smiti,“ segir í minnisblaðinu. 

Hann telur að þessi óvissa gefi tilefni til að fara varlega í tilslökunum innanlands og á landamærum á þessari stundu.   Engu að síður verði hægt að endurmeta þessa stöðu þegar eiginleikar omíkron-afbrigðisins skýrast betur. 

Og ef það kemur í ljós að það veldur ekki skæðum sjúkdómi, bóluefni veiti vörn sem og fyrra smit þá væri hægt að skoða hvort undanskilja eigi þá sem fengið hafa örvunarskammt frá fjöldatakmörkunum og hraðgreiningar-eða PCR-prófum fyrir viðburði. Til greina kæmi einnig að endurskoða sóttkvíarreglur fyrir þennan hóp.

Jafnframt telur Þórólfur tilefni til að undanskilja bólusett börn yngri en 16 ára frá fjöldatakmörkunum og endurskoða reglur um sóttkví fyrir þau. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV