Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telja að omíkron verði orðið ráðandi í Noregi í janúar

epa09523458 Norwegian Minister of Health and Care Services Ingvild Kjerkol (Labor Party) and Foreign Minister Anniken Scharning Huitfeldt (Labor Party) at Slottsplassen after the change of government in Oslo, Norway, 14 October 2021. Norway's new cabinet took office on the day after the designated prime minister presented a center-left minority government.  EPA-EFE/HEIKO JUNGE NORWAY OUT
Ingvild Kjærkol, heilbrigðisráðherra Noregs, kynnir nýjar aðgerðir í kvöld Mynd: EPA-EFE - NTB
Landlæknisembættið í Noregi telur mikilvægt að grípa til hertra aðgerða vegna mikillar útbreiðslu omíkron-afbrigðisins. Embættið segir ólíklegt að þetta nýja afbrigði valdi alvarlegum veikindum hjá bólusettu fólki en þar sem það sé svo smitandi geti það valdið miklu álagi á heilbrigðiskerfið.

Omíkron-afbrigðið hefur náð talsverðri útbreiðslu í Noregi og hópsmitið á jólahlaðborði í Osló hefur vakið heimsathygli. 

Samkvæmt norskum fjölmiðlum hefur afbrigðið greinst víða; bæði í skólum og á 100 manna ráðstefnu í höfuðborginni þar sem allir ráðstefnugestir eru komnir í sóttkví.

Norska landlæknisembættið hefur áhyggjur af þróun mála og lýsir stöðunni sem alvarlegri í nýju minnisblaði. Það telur nauðsynlegt að stíga á bremsuna á meðan beðið sé eftir frekari upplýsingum um omíkron-afbrigðið.

Embættið telur að omíkron-afbrigðið verði búið að taka við af delta-afbrigðinu svokallaða strax í þessum mánuði eða byrjun næsta árs.  Margt bendi til þess að það valdi ekki alvarlegum veikindum og mögulegt sé að það valdi jafnvel minni veikindum hjá bólusettu fólki en delta-afbrigðið.  

Fram kemur á vef NRK að norska ríkisstjórnin ætli að kynna nýjar aðgerðir í kvöld.  Einn af hverjum þremur í Noregi telur að ríkisstjórnin sé ekki að gera nóg til að hemja farsóttina á meðan 48 prósent telur aðgerðirnar nógu harðar. Stuðningur við hertar aðgerðir er minnstur hjá íbúum Oslóar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV