Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mál Arons Einars upphafið að falli Guðna Bergssonar

07.12.2021 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mál Arons Einars Gunnarssonar, sem nú er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, varð kveikjan að falli Guðna Bergssonar sem formanns KSÍ. Þetta má lesa út úr skýrslu úttektarnefndar á vegum ÍSÍ sem birt var í dag. Guðni vissi af því strax í júní að landsliðsfyrirliðinn væri annar mannanna sem sakaður væri um kynferðisbrot í #metoo-frásögn á samfélagsmiðlum. Stjórn KSÍ vissi ekki af fjölskyldutengingu brotaþolans í málinu við starfsmann KSÍ fyrr en í lok ágúst.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók upp rannsókn á málinu að nýju í september en það snýst um kynferðisbrot eftir landsleik í Kaupmannahöfn fyrir ellefu árum.

Aron Einar og Eggert Gunnþór Jónsson, sem báðir hafa réttarstöðu sakbornings, hafa gefið skýrslu hjá lögreglu og lýst yfir sakleysi sínu í yfirlýsingum til fjölmiðla. 

Vissi af málinu strax í júní

Skýrsla nefndarinnar er mjög umfangsmikil, 107 síður en nefndarmenn ræddu við 80 manns. Umfangsmesti kaflinn er um mál Arons Einars og Eggerts Gunnþórs. Þeir eru ekki nafngreindir í skýrslunni.

Í skýrslunni kemur fram að í aðdraganda vináttuleiks gegn Færeyjum í byrjun júní á þessu ári hafi KSÍ borist nafnlaus póstur þar sem spurt var hvort vitað væri hverja væri í raun og veru verið að velja í liðið.

Starfsmaður á skrifstofu KSÍ tók á móti bréfinu, skannaði það og sendi það áfram til Guðna Bergssonar, Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ og Arnars Þórs Viðarssonar, landsliðsþjálfara. 

Í skýrslunni segir að Klara hafi spurt umræddan starfsmann hvort hún vissi eitthvað um slík mál.

Starfsmaðurinn sagði Klöru frá því að fyrir tveimur árum hefði tengdadóttir hennar greint sér frá því að tveir leikmenn landsliðsins hefðu í sameiningu nauðgað sér eftir landsleik Danmerkur og Íslands í Kaupmannahöfn fyrir ellefu árum. 

Klara sendi í framhaldinu bæði Guðna og Arnari Þór tölvupóst þar sem hún upplýsti þá um að birst hefði opinberlega frásögn í tengslum við #metoo sem tengdist landsliðsverkefni. Frásögnin „væri ekki falleg“. Hún væri tengd við nafngreindan leikmann landsliðsins og hún gæti upplýst um nafnið í símtali.

Síðar sama dag áttu Klara og Guðni samtal um málið í síma þar sem Klara greindi nánar frá frásögninni.

Guðni ræddi við tengdamóður brotaþola

Fram kemur í skýrslunni að Guðni ræddi við tengdamóður brotaþolans í júní. Þar fóru þau yfir málavexti og hvað hefði gerst í landsliðsferðinni ellefu árum áður. Guðni spurði hvort þolandinn hygðist gera eitthvað frekar í málinu, nafngreina eða leggja fram kæru en fékk þau svör að hvorki yrði lögð fram kæra né yrði málið rætt við fjölmiðla. 

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að í júlí hafi Aron Einar rætt við Guðna um frásögnina á samfélagsmiðlum að fyrra bragði eftir að birst höfðu fréttir um að Gylfi Þór Sigurðsson væri til rannsóknar í Manchester vegna gruns um kynferðisbrot gegn barni. Gylfi Þór er laus gegn tryggingu þar til á næsta ári en hann hefur ekkert leikið með landsliðinu eða liði sínu Everton eftir að málið kom upp.

Í samtalinu við Guðna hafnaði Aron Einar því alfarið að hann og Eggert Gunnþór hefðu gerst sekir um kynferðisbrot. Lýsingin á samfélagsmiðlum væri ekki í samræmi við upplifun hans og hann ætlaði ekki að játa á sig eitthvað sem hann hefði ekki gert. 

í skýrslunni kemur fram að það hafi komið til tals að málsaðilar hittust en Guðni tjáði nefndinni að hann hefði ekki talið rétt að KSÍ hefði óumbeðið milligöngu um það né sáttarferli í máli sem þessu.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, greindi nefndinni frá því að hann hefði haft í hyggju að velja Aron Einar í landsliðshóp sinn, og að þeir hefðu rætt málið í ágúst. Hann hefði þá ekki vitað annað en „um væri að ræða óstaðfesta frásögn á internetinu.“ 

Í skýrslunni kemur einnig fram að Arnar Þór fékk þær upplýsingar frá starfsmanni KSÍ í aðdraganda leikjanna gegn Norður-Makedóníu, Rúmeníu og Þýskalandi í september að tengdamóðir brotaþolans myndi segja upp störfum ef Aron Einar yrði valinn í liðið.

Arnar Þór og tengdamóðirin ræddu í framhaldinu saman og hún sagðist í viðtali við nefndina hafa upplifað hlutina eins og ekki væri vilji til að taka þetta alvarlega.

Tengdamóðir konunnar greindi nefndinni frá því að á þessum tíma hefði hún fengið það á tilfinninguna að Guðni, Klara og Arnar Þór væru búin að ákveða að þau gætu ekki gert neitt í málinu.

Hún sagðist hafa greint samstarfsfólki sínu frá þessari tilfinningu og nefndin segir að af viðtölum sínum megi ráða að Guðni og Klara hafi verið ráðvillt um hvernig ætti að taka á málinu.

Klara viðurkenndi að málið hefði verið erfitt, ekki síst af því að hún vissi ekki hverjar væntingar þolandans í málinu voru til KSÍ um viðbrögð. Til að mynda hefðu hún og Guðni fengið þau skilaboð að þolandinn vildi ekki á þessum tíma að Aron Einar hætti að spila fyrir Ísland. 

Varaformaðurinn vissi ekkert

Athygli vekur að Borghildur Sigurðardóttir, þáverandi varaformaður, vissi ekkert af þessu máli fyrr en hún frétti af frásögninni á Instagram í gegnum dóttur sína um verslunarmannahelgina. 

Í skýrslunni kemur fram að á þessum tíma hafi Guðni ekki tjáð henni að hann hefði þegar rætt við Aron Einar vegna málsins. Borghildur sagðist heldur ekki hafa vitað að tengdamóðir brotaþola hefði vakið athygli á málinu innan KSÍ. 

Um miðjan ágúst má síðan segja að allt hafi sprungið í loft upp þegar Hanna Björg Vilhjálmsdóttir birti grein á Vísi undir fyrirsögninni „Um KSÍ og kvenfyrirlitningu“ þar sem meðal annars var fjallað um hið meinta kynferðisbrot landsliðsmannanna tveggja. 

Hanna Björg greindi nefndinni frá því að hvert skref sem hún hefði stigið hefði verið tekið með vitund þolandans og í samráði við hana.

Tölvupósti lýst sem „algjörri sprengju“

Eftir að Guðni fullyrti í viðtölum við fjölmiðla, meðal annars við Kastljós, að KSÍ hefði ekki fengið kvörtun né ábendingu um að einhver væri sekur um kynferðisbrot, fékk stjórn KSÍ tölvupóst frá tengdamóður þolandans sem Þorsteinn Gunnarsson, stjórnarmaður, lýsti sem „algjörri sprengju“.

Þar kom fram að hún hefði margoft rætt frásögn tengdadóttur sinnar við Guðna en að sú frásögn hefði ekki verið flokkuð sem ábending í eyrum og augum formanns KSÍ. „Sendi ég hér með formlega ábendingu um meint kynferðisofbeldi tveggja landsliðsmanna eftir landsleik Danmerkur og Íslands á Parken 7. september 2010.“

Klara gekk út eftir samtal við Guðna Th. Jóhannesson

Í lok umfjöllunar nefndarinnar kemur fram að Guðni hafi aldrei rætt við þolandann um sumarið þrátt fyrir að tengdamóðir hennar hafi komið því á framfæri að tengdadóttir hennar væri reiðubúin að tala við hann. Eftir að Guðni sagði af sér mun Klara Bjartmarz hafa ætlað að ræða við hana en af því varð ekki. Hún varð fyrir svo miklu áreiti og fékk svo margar hótanir að henni var meðal annars ráðlagt að sækja barn sitt ekki á leikskóla. 

Í skýrslunni kemur fram að Klara hafi yfirgefið höfuðstöðvar KSÍ og tilkynnt starfsfólki að hún vissi ekki hvort hún kæmi aftur eftir að hafa rætt við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands. Í skýrslunni er síðan rakið hvernig Jörundur Áki Sveinsson, landsliðsþjálfari U-17 ára liðs karla, hafi hlaupið á eftir henni og séð til þess að Klara yrði sótt í vinnuna. 

Það var síðan Borghildur Sigurðardóttir sem hringdi í þolandann að beiðni starfsfólk KSÍ. Tengdamóðir þolandans sagði upp störfum hjá KSÍ eftir að vinna úttektarnefndarinnar hófst. Hún hafði unnið hjá KSÍ í tvo áratugi.

Villandi yfirlýsingar formannsins

Nefndin gagnrýnir Guðna nokkuð harkalega og segir að þær yfirlýsingar sem hann gaf til fjölmiðla og almennings á þessum tíma hafi verið villandi. Á þessum tíma hafi hann verið með á borði sínu tilkynningu starfsmanns KSÍ um ofbeldi gagnvart tengdadóttur sinni og á sama tíma verið í samskiptum við leikmann landsliðsins vegna málsins. 

Nefndin bendir sömuleiðis á að ekki verði séð að formaður eða nokkur annar fyrir hönd KSÍ hafi hvatt starfsmann KSÍ eða tengdadóttur hennar til að leita til lögreglu vegna málsins. 

Nefndin telur jafnframt að það hafi verið óheppilegt að starfsmaðurinn skuli hafa verið settur í þá stöðu að hafa milligöngu um boð til og frá tengdadóttur sinni til KSÍ og formannsins. Guðna hefði átt að vera ljóst að staða hennar sem starfsmanns gat að þessu leyti verið til þess fallin að vekja hjá henni ótta um starfsöryggi sitt. „Slíkt gat enn fremur skapað þrýsting á að halda málinu í þagnargildi og fara ekki með það lengra.“

Guðni Bergsson sendi fjölmiðlum yfirlýsingu eftir að skýrsla nefndarinnar leit dagsins ljós. Þar viðurkennir hann að hafa einblínt um of á formið og trúnað við málsaðila. „Ég reyndi þó eftir bestu getu í þeim tveimur málum sem komu til minnar vitundar að finna þeim réttan farveg. Annað var leyst með sátt á milli málsaðila en hitt málið er nú loks komið í farveg hjá lögreglu.“