Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Katrín treystir Jóni og Bjarni furðar sig á gagnrýninni

07.12.2021 - 19:26
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Jón Gunnarsson telur sig njóta trausts sem dómsmálaráðherra, og ætlar að láta verkin tala í embætti. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segist ekki skilja gagnrýni á skipan Brynjars Níelssonar sem aðstoðarmanns Jóns.

Skipan Jóns Gunnarssonar í embætti dómsmálaráðherra hefur verið gagnrýnd, sérstaklega meðal baráttuhópa gegn kynbundnu ofbeldi. 

„Við erum að glíma við mjög viðkvæman málaflokk hérna og ég mun ekkert gefa eftir í því að takast á við þau verðugu verkefni,“ segir Jón. „Þið munuð sjá það í verkum mínum að ég mun taka því mjög alvarlega.“ Hann telur sig njóta trausts. „Ég tel að það sé traust á mér í þessu embætti. Þó einhver hópur fólks hafi aðra skoðun.“

„Ég er ráðherra, Brynjar aðstoðarmaður“

Raddirnar urðu enn háværari þegar Jón skipaði svo Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem annan aðstoðarmanna sinna. 

Brynjar hefur verið umdeildur fyrir ýmis ummæli í gegnum tíðina. Hann lagði fram frumvarp sem heimilaði fangelsisrefsingu fyrir svokallaða „tálmun“ - sem Jón studdi - og bæði Brynjar og Jón greiddu atkvæði gegn þungunarfrumvarpinu, sem þótti mikilvæg réttarbót fyrir konur.

Þá hefur hann mótmælt hörðum refsingum fyrir vændiskaup og talað um ofstæki og fasisma í nafni femínisma og metoo

Hverju svarar Jón gagnrýni á ráðningu Brynjars? „Ég svara því bara þannig að það er ég sem er ráðherra og Brynjar aðstoðarmaður,“ segir Jón.

Skora á forsætisráðherra að víkja Jóni úr embætti dómsmálaráðherra

Þegar þetta er skrifað hafa hátt í tvö þúsund manns skrifað undir áskorun til forsætisráðherra að Jóni verði vikið úr embætti dómsmálaráðherra. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segist treysta Jóni til að vinna af heilindum hvað varðar kynbundið ofbeldi. „Stjórnarsáttmálinn er algjörlega skýr í þessum efnum, þar stendur til meðal annars til að gera úrbætur á réttarstöðu brotaþola og halda áfram að vinna í þeim málum, sem hefur verið unnið mjög ötullega að,“ segir Katrín. 

Hún segist ekki óttast að skipan hans valdi ákveðnu vantrausti á kerfinu og stjórnsýslunni. „Ja, hann hefur sjálfur sagt það að hann muni leggja sig allan fram og muni reynast traustsins verður og ég treysti honum til þess að standa undir því,“ segir Katrín.  

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki skilja þessa gagnrýni. „Ég átta mig ekki alveg á því hvert þú ert að fara þegar þú spyrð hvort það séu einhverjar hömlur á því hvaða verkefni þessi nýkjörni þingmaður getur tekið að sér. Við erum nýbúin að framkvæma lýðræðislegar kosningar hérna á Íslandi. Og mér er sömuleiðis ómögulegt að skilja hvað átt er við með því að Brynjar Níelsson sé ekki hæfur, ég bara átta mig ekki á því,“ segir Bjarni. „Mér finnst þessi spurning þín algjörlega út í hött.“

Hann telur að það sé lítill minnihlutahópur sem setji sig upp á móti ráðningunni. „Ég myndi ekki segja að þetta sé það sem fólk er almennt að velta fyrir sér,“ segir Bjarni. „Ég held að þú sért að tala hérna fyrir hönd lítils minnihlutahóps, og það er bara sjálfsagt fyrir hann að hafa sína skoðun, en ég er bara algjörlega, fullkomlega ósammála þessum sjónarmiðum,“ segir Bjarni.