Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Danir veita fé til félagsmála á Grænlandi

07.12.2021 - 18:03
Mynd af húsum í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Snjór. Fáni Grænlands blaktir yfir.
 Mynd: Danmarks Radio
Þingmenn Grænlendinga á danska þinginu hafa lýst ánægju með að gert er ráð fyrir auknum útgjöldum til félagsmála á Grænlandi í samkomulagi um fjárlög Danmerkur.

 

Samkomulag um fjárlög á danska þinginu 

Meirihluti danskra þingmanna náði í gær samkomulagi um fjárlög næsta árs. Samið var sérstaklega við færeyska og grænlenska þingmenn um útgjöld til Færeyja og Grænlands næstu fjögur ár. Þau útgjöld nema rúmlega einum og hálfum milljarði og langmest fer til félagslegra verkefna sem tengjast Grænlandi. Þannig er gert ráð fyrir tæplega 50 milljónum íslenskra króna til ráðstafana til að draga úr sjálfsvígum og um 340 milljónum til barnahúsa á Grænlandi.

Aðstoð við heimilislausa

Aki-Matilda Høegh-Dam, þingmaður jafnaðarmannaflokksins Siumut, fagnar því sérstaklega að gert sé ráð fyrir aðstoð við heimilislausa Grænlendinga, bæði heima fyrir og í Danmörku. Kofoedsskólinn í Nuuk, sem aðstoðar þá sem hafa orðið undir í samfélaginu, fær um 40 milljónir króna árlega. Forstöðumaður skólans er Guðmundur Þorsteinsson, sem búið hefur í marga áratugi á Grænlandi.

Barnahúsum komið upp

Þá stendur til að koma upp barnahúsum í Tasiilaq, Ilulissat og Maniitsoq og Aaja Chemnitz Larsen, frá stjórnarflokknum IA, segir að það sé afar mikilvægt. Þá er ætlunin að stofna útvarpsstöð fyrir Grænlendinga sem búa í Danmörku en þeir eru um 17 þúsund.