Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

9 milljónir í undirbúning fyrir pálmatréð í Vogabyggð

07.12.2021 - 10:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Kostnaður vegna undirbúnings fyrir umdeilt útilistaverk í Vogabyggð nemur 8,9 milljónum. Inni í þeirri tölu er forval og kynningarfundir og þóknun til dómnefndar og listamanns. Kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir 9,2 milljónum króna. Til stóð að koma fyrir tveimur pálmatrjám í turnlaga gróðurhúsum í hverfinu en ákveðið hefur verið að fækka trjánum í eitt.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari starfandi sviðsstjóra menningar-og ferðamálasviðs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins. Svarið var lagt fram á fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs í gær.

Pálmatré, tillaga þýska listamannsins Karin Sander, bar sigur úr býtum í samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð. Verkið gerði ráð fyrir að tveimur pálmatrjám yrði komið fyrir í í stórum turnlaga gróðurhúsum. Frá þeim átti að stafa ljós og hlýja. Flytja átti pálmatrén frá Suður-Evrópu og þau áttu að vaxa og dafna í glerhjúpnum. 

Verkið þótti nokkuð umdeilt og þá ekki síst kostnaðurinn en borgin ætlaði að greiða 140 milljónir fyrir það.  Morgunblaðið greindi svo frá því í október að ákveðið hefði verið að fækka trjánum úr tveimur í eitt í samráði við listamanninn.  

Borgin réðst einnig í svokallað raunhæfismat uppá 1,2 milljónir króna, samkvæmt svari sviðsstjóra menningar-og ferðamálaráðs.  Niðurstaða þess var að mögulegt væri að rækta pálmatré miðað við aðstæður í Vogabyggð.

Í svarinu kemur einnig fram að framkvæmdin við listaverkið eigi að fylgja frágangi opinna svæða í hverfinu. Og er hönnun torgsins og uppbygging þess háð annarri uppbyggingu við torgið „og unnið í samráði við listamann verksins og lóðareigendur.“