Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tímabært að skýra stjórnsýslulega stöðu sóttvarnalæknis

06.12.2021 - 08:09
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þórólfur Guðnason segir eðlilegt að heilbrigðisráðherra skipi sóttvarnalækni og að það sé tímabært að stjórnsýsluleg staða hans sé skýrð betur. Hann líti ekki svo á að það sé pólitísk ráðning af hálfu heilbrigðisráðherra.

Tillögur þessa efnis að ráðherra skipi sóttvarnalækni eru nú til umræðu í samráðsgátt stjórnvalda í tengslum fyrirhugaðar breytingar á sóttvarnalögum. Landlæknir skipar sóttvarnalækni samkvæmt núgildandi lögum.

„Mér finnst þetta ekkert óeðlilegt því það er gert ráð fyrir því í lögunum að sóttvarnalæknir vinni undir ráðherra og skili sínum tillögum til hans. Ég túlka þetta ekki þannig að hann sé pólitískt skipaður. Til dæmis er landlæknir ráðinn af ráðherra. Hann er ekki  pólitískt skipaður, hefur ekki verið það. Það fer fram faglegt mat á umsækjendum og það fer í alveg sama ferli og aðrar umsóknir, hvort sem það er undir ráðherra eða ekki. Ég túlka það ekki þannig. Það er verið að skýra betur stjórnsýslulega stöðu sóttvarnalæknis, mér finnst tími til kominn að gera það.“ sagði Þórólfur Guðnason í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Hann skilaði minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra um helgina en núgildandi innanlandsaðgerðir renna út á miðvikudaginn. Líkt og áður tjáir hann sig ekki um efni minnisblaðsins, en það verður að öllum líkindum tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi á morgun. 

Willum Þór Þórsson hefur sagt að honum lítist vel á tillöguna. Tillögurnar byggja meðal annars á álitsgerð sem Páll Hreinsson forseti EFTA dómstólsins gerði að beiðni stjórnvalda í fyrra. Gert er ráð fyrir að frumvarpsdrög verði tilbúin á fyrri hluta næsta árs.

„Þegar við gerðum breytingar í þinginu sem viðbrögð við faraldrinum og tiltölulega hratt og það komi skýrsla frá Páli Hreinssyni sem að kvað upp úr með að við þyrftum að koma með heildarendurskoðun á lögunum,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Í þeim tillögum sem nú eru til umræðu er meðal annars lagt til að fjölskipuð farsóttarnefnd taki að hluta við tillögugerð um opinberar sóttvarnaráðstafanir af sóttvarnalækni. Þá er einnig lagt til að sóttvarnalæknir verði framvegis skipaður af heilbrigðisráðherra en ekki landlækni.

„Já ég held að það geti orðið ágætis fyrirkomulag. Ég held að þetta sé svona stjórnskipulegt atriði út frá ábyrgð og samskiptum. Þannig að ég held að það geti vel orðið góð niðurstaða.“ segir Willum.