Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Óvenju kraftmikill jarðskjálfti en ekki gosórói

Grímsvötn
 Mynd: Atlantsflug - Ljósmynd
Rennsli og rafleiðni í Gígjukvísl heldur áfram að minnka, en sérfræðingar fylgjast enn grannt með stöðunni við Grímsvötn. Fluglitakóði var í dag færður frá gulu í appelsínugulan vegna aukinnar virkni eldstöðvar og möguleika á eldgosi. Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að jarðskjálftinn sem mældist á svæðinu í dag hafi verið óvenju kraftmikill.

Hlaupið náði hámarki úr Grímsvötnum í gær, en hefur verið í rénun síðan. Samkvæmt nýjustu mælingum Veðurstofunnar er rennslið um 1100 rúmmetrar á sekúndu.

Nýr sigketill kom í ljós við Grímsvötn í dag, sem er ekki enn vitað hvernig varð til. Magnús Tumi Guðmundsson ræddi við fréttastofu fyrr í dag og sagði vísindamenn muni að öllum líkindum mæla ketilinn á morgun. Þá sé líklegast hann hafi orðið til vegna heilmikils hita sem kom upp á yfirborðið.

Óvenjuleg skjálftavirkni

Skjálftinn í Grímsvötnum í morgun mældist 3,6 á stærð og var að sögn Böðvars óvenju kraftmikill miðað við eðlilegt ástand á svæðinu. Skjálftinn og eftirskjálftarnir sem fylgdu í kjölfarið teljist þó ekki til gosóróa.

„Það er fylgst vel með. Þetta þarf ekki endilega að þýða að það komi gos, en það er alltaf möguleiki“ segir Böðvar. Þá bendir hann á að tímaramminn sé mjög sveigjanlegur.

„Þetta getur tekið einhverja daga, eða orðið eins og 2011 þegar gaus nokkrum mánuðum seinna“ segir Böðvar.