Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Miðjustefna og íhaldssemi einkenni sáttmálann

Stjórnmálafræðingarnir Ólafur Þ. Harðarson og Eiríkur Bergmann voru gestir Kastljóss í kvöld þar sem stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar var krufinn.

Ólafur sagði, aðspurður um hvað beri hæst, að sáttmálinn einkennist af miðjustefnu. „Ef við skoðum tvenns konar þætti, í fyrra lagi efnahagsstefnuna, þá er alveg ljóst þótt það sé margt óljóst í stjórnarsáttmálanum að þarna er ekki nýfrjálshyggja á ferðinni með niðurskurði og minnkandi ríkisafskiptum,“ sagði Ólafur.

Íhaldssöm miðjustjórn

Eiríkur tók undir með Ólafi og bætti við að stjórnin sé einnig frekar íhaldssöm. „Ef við förum í gegnum helstu deilumálin sem hafa skekið íslensk stjórnmál undanfarin 15 til 20 ár þá hafa það verið ýmis róttæk framfaramál. Uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu, uppstokkun á landbúnaðarkerfinu til aukins frjálsræðis og innflutnings og svo framvegis. Gjörbreyting á stjórnarskrá, aðild að Evrópusambandinu og ýmislegt þess háttar. 

Þetta hafa verið átakamálin í íslenskum stjórnmálum um langa hríð. Ekkert af þessum málum er raunverulega uppi á borðinu sem einhver stórpólitísk mál lengur og þessir flokkar sem ná yfir pólana í efnahagspólitíkinni á Íslandi ná þarna saman um kyrrstöðu í öllum þessum stóru málum,“ sagði Eiríkur.

Áhyggjuefni fyrir stjórnarandstöðu

Þingstörf eru hafin á ný og ræddu þeir Ólafur og Eiríkur einnig um stöðuna á Alþingi. Voru þeir sammála um að sigur ríkisstjórnarflokkanna í nýafstöðnum kosningum sé áhyggjuefni fyrir stjórnarandstöðuna.

„Þetta er mjög mikilvægur punktur sem menn gleyma stundum. Að vísu er stjórnin með svona marga þingmenn að hluta til vegna þess að Sósíalistaflokkurinn náði ekki inn en eigi að síður vann hún stórsigur þótt hún bætti bara við sig 1,5 prósenti. Af hverju er sigur upp á 1,5 prósent stórsigur? Ef við setjum það í sögulegt samhengi er það augljóst. Frá hruni hafa stjórnir, nema minnihlutastjórn Jóhönnu 2009, tapað 10 til 28 prósentum,“ sagði Ólafur.

Stjórnarandstaðan hljóti að spyrja sig að því hvernig stendur á því að henni tókst að vinna það afrek að tapa í þessum kosningum. 
 

Þórgnýr Einar Albertsson
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV