Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fluglitakóði úr gulu í appelsínugult vegna Grímsvatna

06.12.2021 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Breyting hefur verið gerð á fluglitakóða vegna Grímsvatna. Litakóðinn hefur verið færður úr gulum yfir í appelsínugulann.

Samkvæmt skilgreiningu er uppfærsla á fluglitakóðanum í appelsínugult þegar að eldstöð sýnir aukna virkni og vaxandi líkur eru á eldgosi.  Í morgun varð skjálfti 3,6 að stærð í Grímsvötnum. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, sá stærsti 2,1 að stærð. 

Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur segir eftir því sem liðið hefur á morguninn hafi nokkrir eftirskjálftar mælst á svæðinu. Enginn gosórói hefur mælst enn sem komið er. Hlaupið úr Grímsvötnum er í rénun en yfirleitt þegar gos verður eftir hlaup má sjá skýr merki um aukna skjálftavirkni.

„Það hefur verið þannig að það hefur komið skýr skjálftavirkni fram í kringum flóðtoppinn eða dagana í kringum hann og þá hefur verið kröftug skjálftavirkni í einhverjar klukkustundir eða sólarhringa áður en gos hófst en núna erum við bara að horfa á lítillega aukna virkni og fylgjum vel með framhaldinu og sjáum hvert þetta leiðir okkur,“ sagði Einar Bessi í útvarpsfréttum klukkan níu.