Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dregur aðeins úr ánægju með störf borgarstjóra

06.12.2021 - 10:14
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Ingvarsson - RÚV
Ánægja með störf borgarstjórans í Reykjavík hefur aðeins dvínað bæði meðal borgarbúa og annarra landsmanna, samkvæmt nýrri könnun sem birt var í morgun.

Það er Maskína sem gerði könnunina. Samkvæmt henni eru 39 prósent borgarbúa ánægðir með störf Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og 23 prósent segjast vera það í meðallagi, en 37,9 prósent eru óánægðir.

Sé borið saman við sambærilega könnun sem gerð var í febrúar fækkar þeim sem eru ánægðir,  þá voru 40,5 prósent ánægðir, 26,4 prósent í meðallagi og 33,1prósent óánægðir. 

Meðal annarra landsmanna dregur einnig aðeins úr ánægjunni; 28,2 prósent eru ánægðir samkvæmt könnuninni nú, en voru 30,3 prósent í febrúar. Þeir sem eru í meðallagi ánægðir mælast nú 30,3 prósent, en voru 32,6 prósent í febrúar og óánægðir nú eru 41,5 prósent, en í febrúar mældust þeir 37,1 prósent. 

Könnunin var gerð annars vegar dagana 26. október til 3. nóvember og hins vegar 23. nóvember til 2. desember. Svarendur í Reykjavík voru 601 og 2.128 á landinu öllu. 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV