Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Barnabætur á Íslandi með þeim lægstu hjá ríkjum OECD

06.12.2021 - 17:55
Efling telur að hækkun barnabóta, sem ríkisstjórnin boðar, dugi einungis til þess að vega á móti hækkun á verðlagi, og gagnrýnir að skerðing bóta miðist áfram við lágmarkslaun. Barnabætur eru mun lægri hérlendis en á hinum Norðurlöndunum, samkvæmt nýlegri úttekt OECD.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er lagt til að sérstakur barnabótaauki upp á 30 þúsund krónur verði greiddur með hverju barni hjá þeim sem fá tekjutengdar barnabætur og að grunnupphæð barnabóta hækki um allt að 5,8 prósent.

Stefán Ólafson, sérfræðingur hjá Eflingu, segir að þetta dugi ekki til. Hækkun grunnupphæðar barnabóta hefði þurft að vera næstum tvöfalt meiri. „Sú upphæð hefur ekki verið verðbætt síðan 2019 og ef að hún ætti að halda verðgildi sínu þá hefði þurft að hækka hana um rúmlega tíu prósent,“ segir Stefán.

Einnig á að hækka svokölluð skerðingarmörk, en með því er átt við að fólk getur verið með hærri tekjur, áður en bæturnar fara að skerðast. „En þau munu bara hækka einfaldlega jafn mikið og lágmarkslaunin, þannig að áfram munu skerðingar byrja við lágmarkslaun,“ segir Stefán.

Barnabætur eru lægri á Íslandi en hjá flestum ríkjum OECD, samkvæmt nýlegri úttekt Efnahags- og framfarastofnunarinnar

Tökum sem dæmi bætur til foreldra tveggja barna, sex og níu ára, þar sem annað foreldrið er í fullu starfi en hitt í hálfu starfi. Þá eru bæturnar hérlendis 2,5% af meðallaunum. Í Danmörku fær sama fjölskylda 6% af meðallaunum í barnabætur og í Lúxemborg ríflega 13%. 

Ef meðallaun eru 670 þúsund, fær fjölskyldan á Íslandi 17 þúsund krónur á mánuði, en 40 þúsund í Danmörku og 87 þúsund í Lúxemborg.

„Ísland er þarna langt fyrir neðan meðaltal OECD-ríkjanna og enn lengra fyrir neðan hinar Norðurlandaþjóðirnar. Þetta er ekki endilega vegna þess að upphæð óskertra bóta sé svo lág heldur vegna þess að það er byrjað að skerða þær strax við lágmarkslaun, sem við sjáum ekki mikið af í öðrum löndum,“ segir Stefán.