Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hlaupið ryður grjóti frá brúarstólpum

05.12.2021 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Rennsli í Gígjukvísl hefur aukist mikið síðustu daga í jökulhlaupinu úr Grímsvötnum. Þess er nú farið að sjá merki ekki aðeins í vatnshæð við brúna yfir Gígjukvísl heldur líka við stólpa hennar.

Vatnsflaumurinn hefur rutt grjóti frá stólpum brúarinnar líkt og sjá má með samanburði af þessum myndum sem Kristín Sigurðardóttir fréttamaður tók í gær og í dag. Myndina að ofan tók hún í morgun og þar má sjá að ekkert grjót er fyrir framan stólpana þar sem áin fellur að brúnni. Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig staðan var í gær.

Mynd tekin 4. desember
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV

Vatnamælingamenn eru að störfum við brúna yfir Gígjukvísl og eru niðurstaðna úr mælingum þeirra að vænta síðar í dag. Í gær var rennslið komið í 2.600 rúmmetra á sekúndu en til samanburðar er rennslið venjulega um 100 rúmmetrar á sekúndu.