Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Engin kennsla í Hlíðaskóla á morgun og hinn vegna smita

05.12.2021 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engin kennsla verður í Hlíðaskóla á morgun og á þriðjudaginn. 18 smit hafa greinst í skólanum á öllum stigum seinustu daga og því ætla skólastjórnendur að grípa til harðra aðgerða til að fá andrými.

Skólinn sendi frá sér tilkynningu í dag, en Fréttablaðið greindi fyrst frá. Aðalheiður Bragadóttir aðstoðarskólastjóri Hlíðaskóla segir að seinustu daga hafi komið upp smit nánast upp á hvern einasta dag. 

„Við erum búin að vera frekar lánsöm í Hlíðaskóla í haust með smitin en núna seinustu viku, frá þriðjudegi til föstudags þá kom upp smit í mörgum bekkjum eiginlega á hverjum degi sem við fréttum af smiti og vorum að senda í sóttkví í fjóra daga. Þetta eru 18 smit á mjög stuttum tíma sem komu upp og þau dreifast mjög um skólann.“ segir Aðalheiður.

Þá segir hún að smit hafi einnig greinst í nærumhverfi nemenda, foreldra og starfsfólks.

„Þetta hefur bara blossað upp seinustu daga,“ segir hún.

Góðu fréttirnar segir hún að séu þær að börnin eru ekki með mikil einkenni. Þau séu jafnvel að greinast án þess að vera með einkenni. Þau kvarti helst yfir magaverk, höfuðverk og magnleysi. Ákveðið var að grípa til harðra aðgerða á meðan náð er utan um stöðuna, í góðri samvinnu við rakningarteymi almannavarna.

„Við erum að grípa til þess að fá smá andrými til að bæði þrífa skólann vel og átta okkur á stöðunni. Skólahald fellur niður mánudag og þriðjudag. Það eru nokkuð margir nemendur í sóttkví. Þeir fara í PCR-próf og koma í skólann eftir það á miðvikudag. En þeir sem eru ekki í sóttkví fara í hraðpróf og koma eftir það í skólann, bæði nemendur og starfsmenn“ segir Aðalheiður.

Hún segir stutt sé til jóla og ekki síst vegna þess vilji skólinn bregðast við með hörðum aðgerðum.