Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Íshellan sigið um 40 metra en enginn gosórói

04.12.2021 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristín Sigurðardóttir
Íshellan í Grímsvötnum heldur áfram að síga á sama tíma og rennsli eykst í Gígjukvísl. Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir erfitt að spá fyrir um hvort gos fylgi hlaupi.

„Staðan núna er sú að íshellan í Grímsvötnum hefur sigið um rúmlega 40 metra. Við sjáum ennþá hlaupóróa á óróamælum á Grímsfjalli og við Skeiðarárjökul. Þannig vatnið er bara að streyma undir jökli og út í Gígjukvísl,“ segir Hulda Rós.

En er ennþá gert ráð fyrir því að hlaup nái hámarki á morgun?

„Já, miðað við tölurnar sem við fengum í gær þá gerum við ennþá ráð fyrir því að hlaupið nái hámarki á morgun.“

Helsti óvissuþátturinn er mögulegt eldgos í Grímsvötnum kjölfar hlaups. Eruð þið einhverju nær að spá fyrir um hvort það gæti fylgt þessu hlaupi?

Nei, í rauninni ekki. Við erum að sjá nokkra skjálfta koma inn í Grímsfjöllum. Sumir eru bara svona ísbrestir sem erfitt er að staðsetja. En við þurfum bara að bíða og sjá hvað gerist. Við fylgjumst með öllum mælum en það er enginn gosórói sjáanlegur núna,“ segir Hulda Rós Helgadóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.