Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eldur kviknaði í timburfarmi stórs flutningaskips

04.12.2021 - 15:49
Mynd með færslu
 Mynd: Ann-Britt Boll - SVT
Eldur kviknaði í stóru flutningaskipi nærri eyjunni Vinja úti fyrir Gautaborg í Svíþjóð upp úr hádegi. Sautján manns eru í skipinu og berjast þeir við að slökkva eldinn með aðstoð skipa og þyrla sem eru komin á vettvang. Sænska ríkissjónvarpið hefur eftir Anders Lännholm sem stýrir björgunaraðgerðum úr landi að ástandið fari heldur versnandi. Á fjórða tímanum að íslenskum tíma var verið að undirbúa brottflutning áhafnarinnar úr skipinu.

Eldurinn kviknaði í timburfarmi í skipinu. Flutningaskipið Almirante Storni er 177 metra langt og gert út undir líberískum fána. Skipið er skammt úti fyrir skerjagarðinum við Gautaborg og sést eldurinn því vel úr landi.

Enginn mun hafa slasast í eldsvoðanum.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV