Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tugþúsundir Norðmanna verða af bótum um áramót

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tugir þúsunda atvinnulausra Norðmanna horfa fram á að þröngt verði í búi eftir áramótin en þá tapa margir rétti sínum algerlega og greiðslur verða skornar verulega niður til annarra. Ástæðan er sú að sérstökum aðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins verður hætt 1. janúar.

Í frétt norska ríkisútvarpsins af málinu kemur fram að sá hámarkstími sem atvinnuleysisbætur eru greiddar verði ekki framlengdur auk þess sem greiðslur lækka verulega.

Það hefur þegar áhrif á næstum 61 þúsund manns og næsta hálfa árið bætast 41 þúsund í þann hóp. Þessar tölur hefur NRK úr svari fjármálaráðuneytisins til rauðliða á norska Stórþinginu.

Margir bera ugg í brjósti vegna afkomu sinnar, einkum í ljósi þess að brýnustu nauðsynjar hafa hækkað mjög í verði, ekki síst eldsneyti, rafmagn og matvara. Eftir ríkisstjórnarskiptin í haust var ákveðið að framlengja sérstök úrræði til 1. janúar. 

Mímir Kristjánsson þingmaður rauðliða kveðst afar undrandi yfir því að ríkisstjórn Jonasar Gahr Støre ætli sér ekki að framlengja tímabil bóta í ljósi þeirra orða forsætisráðherrans að faraldurinn sé hvergi að baki. Hann kveðst vilja sjá framlengingu til 1. júlí. 

Mímir segir það alveg rétt hjá Støre og því eigi liðsinni stjórnvalda ekki að vera að baki heldur. Þegar fólk falli af atvinnuleysisskrá af einhverjum ástæðum bíði þess ekkert nema annað tveggja, félagsleg aðstoð eða hreint engin aðstoð.

Støre metur stöðuna þannig að smám saman stefni flest til eðlilegs lífs en segir ríkisstjórnina vakandi fyrir stöðunni og tilbúna að grípa til aðgerða gerist þess þörf.