„Þetta eru ójólalegustu jól sem ég hef haldið“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta eru ójólalegustu jól sem ég hef haldið“

03.12.2021 - 11:10

Höfundar

Þegar kirkjuklukkur hringdu inn jól fyrir nokkrum árum stóð rapparinn Kristinn Óli Haraldsson á strönd á Tenerife með H&M-poka og átti erfitt með að skilja hvað hann væri að gera þarna en ekki heima í faðmi fjölskyldunnar. Hann segir frá jólahefðum og syngur lög ásamt Katrínu Halldóru Sigurðardóttur í þættinum Jólin koma, sem er á dagskrá í kvöld.

Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Kristinn Óli Haraldsson, eða Króli eins og hann er kallaður, hafa aldrei fengið að syngja saman fyrr en nú loksins en það hefur um hríð verið draumur beggja. Þau koma fram í þætti Jóns Ólafssonar, Jólin koma, sem er á dagksrá á RÚV í kvöld. Í þættinum flytja þau meðal annars saman hið angurværa jólalag Það snjóar með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni. Þau eru bæði hrifin af jólasnjónum sem fellur til jarðar víða um land en hafa ekki alltaf fengið að upplifa hann um jólin.

Mynd: RÚV / RÚV
Það snjóar hjá Katrínu og Króla í laginu en enginn slíkur var sjáanlegur á Tenerife forðum.

Króli segir í þættinum frá því þegar hann varði jólunum með vinahóp sínum á Tenerife átján ára gamall. „Það voru engin jól sko,“ segir hann um reynsluna. Klukkan sex á aðfangadag þegar fjölskyldan settist til borðs til að borða jólamatinn í snjónum stóð hann á ströndinni á Tenerife með poka úr versluninni H&M í hönd. Akkúrat þá velti hann því fyrir sér hvað hann væri eiginlega að gera þarna. „Við vorum tíu saman, átján, nítján ára guttar í einhverri villu,“ segir hann.

Sex af tíu strákum í ferðinni horfðu á allar Twilight-myndirnar meðan á dvöl þeirra stóð. „Mér fannst það ótrúlega fyndið,“ segir Króli. „Þeir fóru í utanlandsferð sem kostaði morð fjár fyrir unga drengi og eyddu svona sextíu prósent tímans fyrir framan sjónvarp. Þetta voru ójólalegustu jól sem ég hef haldið.“

Jólin koma er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 19:40.